Íslensk kona grunuð um stórfelld fjársvik

Merki Harrison New York þar sem parið býr og starfar
Merki Harrison New York þar sem parið býr og starfar Af vef Harrison

Íslensk kona var í síðustu viku handtekin ásamt unnusta sínum, í New York ríki í Bandaríkjunum, grunuð um stórfelld fjársvik. Er parið  grunað um að hafa svikið allt að 20 milljónir dala, 2,2 milljarða króna út úr einum manni á sex ára tímabili. 

Fram kemur á vef saksóknaraembættisins í Westchester, að konan heiti  Helga Ingvarsdóttir, 39 ára, og maðurinn  Vickram Bedi, 36 ára, en þau búa í Chappaqua. Fjársvikin hafi tengst lygavef um tengsl við CIA, ferðir til Hondúas og pólska presta.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, staðfestir við Fréttablaðið í dag að íslensk kona hafi verið handtekin í Bandaríkjunum og ráðuneytið hafi verið í sambandi við fjölskyldu hennar til að aðstoða þau við framhaldið. 

Saksóknarar segja, að fólkið hafi verið handtekið í síðustu viku. Haft er eftir saksóknaraembættinu í Westchestersýslu, að fólkið hafi notað tölvuþjónustufyrirtækið Datalink, sem það rak, við fjársvikin.  

Maðurinn, sem parið er grunað um að hafa svikið, heitir Roger Davidson, stofnandi útgáfufélagsins Soundbrush Records. Hann er afkomandi stofnenda alþjóðlega stórfyrirtækisins Schlumberger Ltd., sem veitir olíufélögum þjónustu. Hann er einnig þekktur tónlistarmaður. Leiðir hans og parsins lágu saman árið 2004 þegar veira komst í tölvu mannsins og hann fór með tölvuna í viðgerð.

Vefurinn Patch.com í Harrison hefur eftir lögreglu, að Bedi hafi sagt Davidson, að ráðist hafi verið á tölvu hans og að hann og fjölskylda hans væru í mikilli hættu. Hafi Bedi sagt, að hann gæti haft upp á þeim, sem stæðu fyrir tölvuárásunum ef maðurinn yrði samvinnuþýður og greiddi fyrir. Með þessu móti hafi Bedi fengið manninn til að greiða hátt mánaðarlegt gjald af greiðslukorti sínu.

Í fréttatilkynningu saksóknaraembættisins í Westchester segir að þau Bedi og Helga hafi spunnið upp lygavef til að halda manninum við efnið. Þeim hefði tekist að rekja uppruna tölvuveirunnar til afskekkts svæðis Hondúras. Telur lögregla að Bedi hafi sagt manninum, að hann hafi sent frænda sinn, sem væri í indverska hernum, í leiðangur til svæðisins til að afla upplýsinga. Hafi frændinn fundið harðan tölvudisk, þar sem tölvuveiran ætti upptök sín, í herflugvél í þorpi nokkru. 

Þá hafi Bedi haldið því fram, að frændi hans hefði í Hondúrasferðinni aflað leynilegra upplýsinga um að pólskur prestur, sem tengdist leynireglunni Opus Dei, hefði í hyggju að vinna manninum tjón. Bedi sagði manninum einnig, að bandaríska leyniþjónustan CIA hefði ráðið hann til að koma í veg fyrir tilraunir pólskra presta til að njósna um bandarísk stjórnvöld. 

Lögregla í Harrison komst á sporið í ágúst þegar tveir íbúar í bænum Purchase fundu GPS staðsetningartæki, sem höfðu verið fest á bíla þeirra. Telur lögreglan, að tækin hafi verið sett á bílana eftir að Bedi sagði viðskiptavini sínum, að fólkið tengdist alþjóðlegum hópi, sem vildi ráða hanan af dögum.

Patch.com hefur eftir Anthony Marraccini, lögreglustjóra í Harrison, að hluti af svikamyllunni hafi verið að telja manninum trú um, að íbúar í Purchaes vildu hann feigan. Maðurinn hafi þá leitað til öryggisþjónustufyrirtækis, sem kunni að hafa komið eftirlitsbúnaðnum fyrir.   

Lögreglan segir, að þau Helga og Bedi hafi verið í útlöndum skömmu áður en þau voru handtekin. Hafi lögregla óttast, að þau myndu ekki snúa aftur til Bandaríkjanna og því handtekið þau þegar þau snéru þangað aftur. Helga er íslenskur ríkisborgari en með dvalarleyfi í Bandaríkjunum. 

Við húsleit á heimili fólksins og á skrifstofum tölvufyrirtækis þess var hald lagt á tölvur, 150 þúsund dali í reiðufé, bíla og skartgripi. Bankareikningar fólksins voru frystir og hald lagt á fasteignir sem það á.  

Þau Helga og Bedi hafa verið ákærð fyrir stórfelld fjársvik og eiga yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsi verði þau sakfelld.  Þau koma fyrir rétt í Mt. Kisco 2. desember. Að sögn saksóknara eru þau í fangelsi í  Westchester en geta fengið sig laus gegn 3 milljóna dala tryggingu. 

Tilkynning saksóknaraembættis Westchester

Patch.com í Harrison

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert