Óljóst hvenær niðurstöðurnar liggja fyrir

Alls nýttu 83.576 kosningabærra manna kosningarrétt sinn um helgina. Það …
Alls nýttu 83.576 kosningabærra manna kosningarrétt sinn um helgina. Það samsvarar 36% þátttöku. mbl.is/Ernir

Óljóst er á þessari stundu hvenær niðurstöður kosninganna til stjórnlagaþings, sem fram fóru á laugardag, verða birtar. Vonir standa til hægt verði að gera það í dag en ekki er útilokað niðurstöðurnar verði að bíða til morguns. Fara þarf sérstaklega yfir þúsundir atkvæða og hefur það tafið ferlið.

Ástráður Haraldsson, formaður landskjörstjórnar, segir í samtali við mbl.is að unnið sé að því að fara yfir atkvæði sem þurfi mannlegrar skoðunar. Ferlið sé seinlegt. „Þetta ferli hefur tekið lengri tíma heldur en við gerðum ráð fyrir og stendur ennþá yfir.“

Sem dæmi megi nefna þá geti atkvæði verið illlæsileg, sama númerið geti komið fyrir tvisvar eða þá að það vanti tölur inn á seðilinn. „Það er því ekki rétt að tala um ógild atkvæði. Atkvæði getur verið ógilt að hluta,“ segir Ástráður.

Aðspurður segist hann ekki hafa nákvæma tölu varðandi fjölda þeirra sem þarf að skoða með þessum hætti, þau séu hins vegar á annan tug prósenta.

„Það er ekki fyrr en öll atkvæðin eru komin í gagnagrunninn og orðin staðfest sem rétt lesin, að við getum byrjað að reikna niðurstöðuna,“ segir Ástráður. 

Hann vonast til að geta sent út tilkynningu síðar í dag varðandi það hvenær menn megi vænta niðurstöðunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert