Óeirðir á Austurvelli 30. mars 1949

Óeirðirnar á Austurvelli urðu miðvikudaginn 30. mars 1949, þegar Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um inngöngu Íslands í Norður-Atlantshafsbandalagið - NATÓ. Andstæðingar, stuðningsmenn og almennir borgarar flykktust á Austurvöll til að láta óánægju sína í ljós, en sumir andstæðinganna létu grjóti, eggjum og mold rigna yfir Alþingishúsið. Lögregla ákvað að dreifa mannfjöldanum með því að varpa táragasi á hann. Varalið lögreglunnar var kallað út og voru varaliðarnir með breska hermannahjálma og armbindi, ýmist hvít eða í fánalitunum, sem einkenni. Þessi átök milli andstæðinga tillögunnar annars vegar og lögreglu, varaliðs hennar og stuðningsmanna tillögunnar hins vegar eru mestu óeirðir sem orðið hafa á Íslandi.