Plútó

Þar sem Plútó er í um 5,9 milljarða kílómetra fjarlægð frá sólinni, nýtur þar 1.000 sinnum minni birtu en á jörðinni og má búast við að sólin sé eins og hver önnur stjarna í himingeimnum séð frá Plútó. Nauðsynlegt þykir því að nota aflgjafa til að knýja geimfarið New Horizon áfram í þau tíu ár sem ferðin varir. Til þess er notað geislavirka efnið plútoníum, sem brotnar niður á meðan ferðin varir. Hiti frá niðurbroti efnisins er síðan virkjaður í geislahitarafal til að framleiða rafmagn og koma geimfarinu áleiðis. Rafall sem þessi hefur áður verið notaður í fyrri geimferðum, s.s. Cassini geimfarinu, sem rannsakaði Júpíter á síðasta ári, og í geimfarinu Galileo, sem skotið var á loft árið 1989 og tók myndir af Júpíter og Io, tungli reikistjörnunnar frá árinu 1995. Geimfarið eyddist upp í stormhjúpi reikistjörnunnar í september árið 2003 eins og NASA hafði gert ráð fyrir. Geimfarsins New Horizon bíða svipuð örlög eftir að rannsókn á Kuiper smástirnabeltinu lýkur á árunum 2016 til 2020.

Kjarnorkuandstæðingar höfðu lýst nokkrum áhyggjum sínum af geimskoti New Horizon vegna þess að tækin um borð eru knúin rúmlega tíu kílóum af plútoníum. NASA og bandaríska orkumálaráðuneytið mátu hættuna á slysi við geimskotið, sem gæti valdið geislun, það litla að óhætt þótti að senda farið á loft.

Til baka