Plútó

Eins og áður sagði var geimfarinu New Horizon, sem er álíka stórt og flygill og um 550 kíló að þyngd, skotið á loft frá Canaveral-höfða á Flórída 19. janúar síðastliðinn. Forsaga geimskotsins er sú að árið 2002 þótti NASA nauðsynlegt að rannsaka Plútó þegar reikistjarnan væri sem styst frá jörðu. John Hopkins háskólinn fékk leyfi til smíði geimfarsins í apríl árið 2003 og lauk henni á síðasta ári. Sækja þurfti um sérstakt leyfi til bandaríska orkumálaráðuneytisins til að setja hitarafal í geimfarið sem knýr það áfram.

Heildarkostnaður við þróun, smíði og geimskotið sjálft nemur um 39,8 milljörðum íslenskra króna.

Lengi var vafamál hvort tækist að skjóta geimfarinu á loft á þessu ári vegna tæknilegra örðugleika, rafmagnsleysis við rannsóknarstofuna þar sem unnið var að undirbúningi geimskotsins og slæmra veðurskilyrða yfir Canaveral-höfða. Að sögn dr. Fran Bagenal, eins vísindamannanna hjá NASA, skiptu tímasetningar á geimskotinu miklu máli. Sagði hún mikilvægt að skjóta því upp fyrir 1. febrúar næstkomandi. Að öðrum kosti hefði ekki verið mögulegt að nýta aðdráttarafl Júpíters, þegar New Horizon kemur að plánetunni á næsta ári, til að "slengja" geimfarinu áfram og stytta ferðina um þrjú ár. Ef geimskotið hefði dregist fram yfir mánaðamótin yrði Júpíter ekki lengur á leið geimfarsins og myndi New Horizon því þurfa að halda för sinni áfram til reikistjörnunnar. Ef svo hefði orðið hefði farið ekki náð takmarki sínu fyrr en í fyrsta lagi árið 2018. Ef ferðinni hefði verið alfarið slegið á frest um eitt ár hefði einungis verið mögulegt að reyna geimskotið á nýjan leik á milli 2. og 15. febrúar á næsta ári. Hefði svo farið hefði geimfarið ekki komist að Plútó fyrr en í fyrsta lagi árið 2020. Þá segja vísindamenn stofnunarinnar að mikilvægt sé að komast til Plútó sem fyrst, því reikistjarnan verður innan fárra ára komin það langt frá sólu að eftir 2020 nýtur þar ekki lengur birtu frá sólinni og því erfiðara um vik að kanna yfirborð Plútó.

Þar sem geimfarið verður lengi á ferð um sólkerfið, í 10 ár hið minnsta, gefur að skilja að leita þurfti nýrra og áður óþekktra leiða til að knýja það áfram. Niðurstaðan varð sú að nota Atlas 5 eldflaugar frá Lockheed Martin. Geimfarið náði fljótlega tæplega 58 þúsund kílómetra hraða, eða um hundraðfalt meiri hraða en venjulegar farþegaþotur fljúga á. Þetta er hraðskreiðasta geimfar sem skotið hefur verið á loft og er búist við að það verði komið í grennd við Júpíter eftir tæpt ár.

Vísindamenn NASA búast við að New Horizon komi að Júpíter á milli 25. febrúar og 2. mars á næsta ári en þetta verður í þriðja sinn sem reikistjarnan verður rannsökuð. Fyrri könnunarleiðangra fóru geimförin Cassini-Huygens, samvinnuverkefni NASA og evrópsku geimferðastofnunarinnar ESA, sem skotið var á loft í október árið 1997, og Galileo, sem tók myndir af reikistjörnunni á árunum 1995 til 2003. Cassini tók ljósmyndir af yfirborði reikistjörnunnar Júpíters árið 2000 en Huygens rannsakaði Satúrnus og lenti á einu fylgitungla þess, Títan. Galileo tók hins vegar myndir af Júpíter og tunglinu Io. New Horizon mun hins vegar fara allt að þrisvar til fjórum sinnum nær plánetunni en Cassini komst áður en það heldur áleiðis til Plútó.

• Ýmsar upplýsingar BBC um geimskotið
Til baka