Plútó

Á meðal þess sem New Horizon mun rannsaka er gerð gufuhvolfsins á Plútó og sveiflur þess. Þá bíða menn spenntir eftir því að sjá hvernig yfirborð plánetunnar líti út enda er ekki vitað hvort þar sé að finna hrjúft landslag eður ei. Ein þeirra spurninga sem menn spyrja sig er hvort áhrifa sólarinnar gæti á yfirborði Plútó, ystu plánetu sólkerfisins, og hver þau eru.

Þegar rannsókn New Horizon á Plútó lýkur er ferðinni heitið til Kuipersbeltsins, smástirnasvæðis, sem talið er að hafi myndast vegna áhrifa frá Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus, og er við jaðar sólkerfisins. Þetta svæði er kennt við stjörnufræðinginn Gerard Kuiper sem setti fram þá tilgátu að handan Neptúnusar væru ís- og bergsteinar, sem ekki hefðu náð að verða að reikistjörnum við myndun sólkerfisins. Vonast er til að með rannsókn á smástirnasvæðinu geti vísindamenn fundið út hvernig pláneturnar urðu til og jafnvel áttað sig á þróun sólkerfisins.

Teymi vísindamanna sem komu að verkefni NASA völdu þau verkfæri af kostgæfni, sem prýða New Horizon. Þeim er ekki aðeins ætlað að safna upplýsingum um þau svið, sem NASA hefur áhuga á að kanna, heldur einnig styðja við og koma í stað þeirra verkfæra sem talið er að geti bilað á leiðinni.

Helstu verkfærin um borð í New Horizon eru sjö talsins. Á meðal þeirra eru tveir innrauðir litrófsskannar og -mælar sem kanna litasamsetningu gufuhvolfa umhverfis Plútó, Karon og Kuipersbeltið auk þess sem mælitæki er utan á því sem mælir hitastig gufuhvolfs Plútós. Auk þessa er á geimfarinu myndavél með stórri aðdráttarlinsu, sem tekur ljósmyndir af Plútó í hárri upplausn. Sérstakt tæki, sem nemendur við John Hopkins háskóla smíðuðu, er einnig að finna á geimfarinu. Tækið kallast SDC en það mælir geimryk á leið New Horizon um sólkerfið. Fyrstu 13 mánuðina á meðan ferð geimfarsins stendur, verður ýmis tækjabúnaður New Horizon kannaður, verkfæri þess prófuð og þau fínstillt auk þess sem koman að Júpíter verður undirbúin. Tækjabúnaðurinn mun eftir þetta verða prófaður reglulega eftir því sem nær dregur áfangastað.

• Myndskráasafn John Hopkins háskólans af ýmsum þáttum leiðangursins  •  Myndskráasafn NASA um könnunarleiðangurinn  •  Ítarlegar myndaskrár NASA frá smíði geimfarsins þar til því var skotið áleiðis til Plútó:  •  Margmiðlunarefni frá NASA um Plútó
Til baka