Helgi Magnús Gunnarsson, talsmaður ríkissaksóknara, þegar ellefu mönnum var gefið að sök að hafa sett á netið gríðalegt magn höfundaréttarvarins efnis, segir málið nú komið til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Helgi segist ekki vita til þess að fylgst sé með fleiri mönnum sem séu að opna fyrir aðgengi að höfundarvörðu efni á netinu. Mennirnir sem nú eru til rannsóknar séu ellefu af sjálfsagt 100 eða fleirum sem stóðu í umfangsmikilli dreifingu á höfundarvörðu efni á netinu og enginn leið að botna þann fjölda. „Þeir voru að nota Direct Connect skáarskiptiforritið og DC++, sem er önnur útgáfa þess,“ segir Helgi. Það eru dæmigerð skráaskiptaforrit en erfiðara er að henda reiður á því hvað er að gerast noti menn Bit Torrent forritið, þar sem hverri skrá er púslað saman úr mörgum áttum/tölvum.

Helgi segir ekki hafa verið aðgreint innlent efni frá erlendu í kærumálinu því höfundar njóti sömu verndar samkvæmt lögum og alþjóðlegum samningum um vernd hugverkaréttar. Efnið sé hins vegar flokkað eftir gerð, þ.e. tónlist, kvikmyndir, forrit o.s.frv. „Þetta snýst um einkarétt höfundar til að birta verk sín í upphaflegri eða breyttri mynd. Ef þú opnar aðgang að höfundarréttarvörðu efni út á netið ertu í rauninni að birta það öðrum í heimildarleysi endurgjaldslaust. Þetta er eins og að vera með myndbandaleigu með ólöglegum afritum og dreifa þeim til hvers sem þau vill,“ segir Helgi. Ekki skipti máli hvort menn hafi sett efnið fyrstir allra á netið eða ekki hvað varðar refsiábyrgð. „Það eru nokkur lögfræðileg álitaefni sem eru skemmtileg og ekki öllu svarað. Til dæmis hvort það sé refsivert að hlaða niður til eigin nota, það eru áhöld um hvort það sé refsivert. Danir fóru þá leið að lýsa það sérstaklega refsivert,“ segir Helgi. Það sé „upphalið“ svonefnda sem menn einblíni á hér sem refsivert. Höfundarréttur kveði á um að höfundurinn eigi réttinn á því að fjölfalda efni og dreifa því.

Nú er mikið um lögsóknir og kærur í heiminum vegna óheimillar dreifingar á höfundarréttarvörðu efni á netinu. Alþjóðasamtök tónlistariðnaðarins, IFPI, og dóttursamtök þess í einstökum löndum, sendu frá sér fréttatilkynningu þann 4. apríl s.l. þar sem lögsóknir eru boðaðar á hendur um 2.000 einstaklingum sem opna öðrum aðgang að höfundaréttarvarinni tónlist víða um heim. Helgi segir þetta auðvitað gríðarlegt hagsmunamál fyrir þennan iðnað en hann viti ekki hvort þetta ákveðna mál hafi teygt sig til Íslands. Erfitt sé þó að hafa eftirlit með þessu, hópar sem deila með sér skrám gætu skipt sér í smærri hópa, en hægt sé að leita uppi þá sem eru að sanka að sér efni. Útbreiðslan og fjöldi notenda sé svo gríðarlegur að sjálfsagt verði að finna aðra lausn á málum en að reyna að hafa uppi á fólki og refsa því, m.a. með því að gera sölu á tónlist á netinu meira aðlaðandi. Sumt sem fólk sé að deila með sér sé ekki beinlínis söluvara lengur, t.d. gamlir sjónvarpsþættir. „En lögreglan stendur frammi fyrir því að þetta er refsivert og verður að sinna kærum á meðan lögin standa óbreytt,“ segir Helgi að lokum.

Til baka á upphafssíðu