þri. 20. feb. 2018 13:30
Andrea Thorisson Diaz í búningi Kungsbacka.
Andrea skiptir um félag í Svíþjóð

Andrea Thorisson Diaz, knattspyrnukonan unga sem hefur verið á mála hjá sænska stórliðinu Rosengård undanfarin ár, er gengin til liðs við Kungsbacka sem leikur í sænsku B-deildinni.

Andrea, sem verður tvítug í mars, hefur verið í röðum aðalliðs Rosengård undanfarin þrjú tímabil og spilað sex leiki með liðinu í sænsku úrvalsdeildinni, fimm þeirra á síðasta tímabil þar sem hún var í byrjunarliðinu í einum leik. Þá kom hún við sögu í einum leik með liðinu í Meistaradeild Evrópu í haust.

Andrea leikur sem framherji og hefur spilað 21 leik með yngri landsliðum Íslands og skorað í þeim 5 mörk.

Kungsbacka, frá samnefndum bæ á vesturströnd Svíþjóðar, hafnaði í 5. sæti B-deildarinnar á síðasta tímabili en forráðamenn félagsins hafa lýst því yfir að markmiðið sé að koma liðinu í úrvalsdeildina sem allra fyrst. Það var undirstrikað á dögunum þegar sænska landsliðskonan Antonia Göransson gekk til liðs við félagið en hún er 27 ára og hefur spilað 50 landsleiki fyrir Svíþjóð.

til baka