mið. 25. apr. 2018 10:23
Frá vinstri: Aðalsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Icewear, Pétur Ólasson, hafnarstjóri Hafnarsamlags Norðurlands og Friðrik Þór Stefánsson rekstrarstjóri verslana Icewear við undirritun samningsins á Akureyri.
Icewear tekur við rekstri Vitans

Icewear og Hafnarsamlag Norðurlands hafa gert fimm ára samning um rekstur og umsjón Vitans, þjónustumiðstöðvar fyrir farþega skemmtiferðaskipa sem hafa viðkomu á Akureyri.

Icewear mun einnig þjónusta ferðaþjónustufyrirtæki, bílaleigur, rútufyrirtæki og önnur ferðaþjónustufyrirtæki um sölu á ferðum og þjónustu til farþega á staðnum. Nýting þjónustuhússins utan ferðatíma skemmtiferðaskipa verður skipulögð í samstarfi við hafnaryfirvöld, en til greina kemur að hafa verslun eða aðra þjónustu í húsinu sem hentar vel yfir vetrartímann.

Í fréttatilkynningu um samninginn segir að mikil aukning hafi verið í heimsóknum skemmtiferðaskipa til landsins og að áætlaður fjöldi skipa sem hafa viðkomu á Akureyri sé yfir 60. Munu mörg þeirra leggjast oftar en einu sinni að bryggju yfir sumarið. 

Fyrir rekur Icewear þjónustumiðstöðina á Skarfabakka í Reykjavík og mun vöruúrval Vitans verða sambærilegt því sem þar er boðið upp á, til dæmis útivistarfatnaður, íslenskar ullarvörur og mikið úrval af minjagripum. Einnig verður í boði mismunandi íslensk matvara, handverk og aðrar vörur sem keyptar eru af heildsölum eða handverksfólki.

til baka