fim. 20. sept. 2018 21:24
Gill segir kjötið bragðast mun betur þegar humarinn hefur verið deyfður með maríjúana fyrir drápið.
Nota maríjúana til að róa humarinn

Veitingastaður nokkur í Maine í Bandaríkjunum notar maríjúana til að róa humrana áður en þeim er skellt út í sjóðandi vatnið, að því er BBC greinir frá.

Forsvarsmenn veitingastaðarins Charlotte's Legendary Lobster Pound segja aðferðina mannúðlegri og hún lini kvalir humarsins.

Það tíðkast víða að elda humar með því að setja hann lifandi út í sjóðandi vatn og er sú aðferð grimmileg að margra mati. Sífellt fleiri vísbendingar eru enda um að skelfiskur finni fyrir sársauka líkt og önnur dýr.

Í Sviss var sú regla sett í janúar á þessu ári að það verði að rota humra áður en þeir eru soðnir.

Charlotte Gill, eigandi Charlotte's Legendary Lobster Pound, segir þá sem neyta humars sem hefur verið deyfður með maríjúana ekki þurfa að óttast að fara í vímu. Kjötið af humrinum verði hins vegar miklu bragðbetra, þar sem humarinn sé afslappaður þegar hann drepst.

„Ef við ætlum að taka líf ber okkur skylda til að gera það eins mannúðlega og hægt er,“ hefur staðarblaðið Mount Desert Islander eftir Gill. „Bragðmunurinn sem verður við þetta á kjötinu er líka ótrúlegur.“

Maríjúana er löglegt í Main og Gill hefur leyfi til að rækta það og selja í lækningaskyni.

til baka