lau. 22. sept. 2018 19:09
Vilhelm Gauti Bergsveinsson, þjálfari HK.
Þetta var háspenna - lífshætta

Vilhelm Gauti Bergsveinsson, þjálfari HK, var himinlifandi með sigur sinna kvenna í Vestmannaeyjum í dag gegn ÍBV þegar liðin mættust í 2. umferð Olís-deildar kvenna í handknattleik. Leiknum lauk með eins marks sigri gestanna 22:21 en sigurmarkið gerði Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir á síðustu sekúndu leiksins.

Sjá: Magnaður sigur nýliða HK í Eyjum

„Þetta var háspenna lífshætta, alveg í 60 mínútur. Við náðum að slíta okkur aðeins frá þeim í byrjun seinni hálfleiks þegar við komumst fimm mörkum yfir, handbolti er sveiflu leikur þannig ég sá það ekki fyrir mér að við myndum stinga þær af. Þær þrýstu verulega á okkur en Korka (Melkorka) í markinu og vörnin okkar hélt síðustu fimmtán mínúturnar, það er lykillinn að þessu. Á meðan vörnin heldur þá fáum við fleiri og fleiri sénsa sóknarlega, maður er gríðarlega ánægður með hvernig þær stóðust álagið og áhlaupið. Þetta eru ungar stelpur og ég efast ekki um að taugarnar hafi verið þandar hjá þeim, þær voru allavega þandar hjá mér, ég viðurkenni það blákalt,“ sagði Vilhelm sem var bersýnilega að springa úr stolti yfir leikmönnum sínum. 

ÍBV náði tveimur góðum áhlaupum í leiknum en í fyrri hálfleik stoppaði Vilhelm það með leikhlé, eftir að ÍBV náði tveggja marka forystu í 10:8. 

„Ég lærði af síðasta leik, ég horfði á ÍBV á móti Stjörnunni, ÍBV kláraði þann leik á síðustu tíu mínútunum í fyrri hálfleik þar sem þær stungu Stjörnuna af. Ég var með það niðurnjörvað á bakvið eyrað að það ætti ekki að gerast hérna í dag, um leið og ég fann að þær voru komnar á eitthvað run, þá ákvað ég að brjóta taktinn hjá þeim,“ sagði Vilhelm en hann tók einnig leikhlé þegar ÍBV var að éta upp fimm marka forskot HK á stuttum kafla í síðari hálfleik. Leikhléin hans Vilhelms virkuðu frábærlega í þessum leik. 

„Það var vel tímasett, ég skal alveg klappa sjálfum mér á bakið fyrir það, en fyrst og fremst er þetta sigur liðsins, þó að það hljómi voðalega klisjukennt. Mig langar að tileinka þennan sigur henni Elnu okkar, hún var nýkomin til baka úr krossbandameiðslum, okkar fyrsti línumaður. Hún meiðist illa á æfingu á fimmtudaginn og er það mögulega krossinn, ég veit það ekki, en við getum ekki útilokað það ennþá. Mig langar að kasta þessum tveimur punktum heim til hennar,“ sagði Vilhelm en hann vildi einnig fá að þakka veðmálasíðunni Coolbet.

„Svo langar mig að þakka Coolbet fyrir að bjarga fjárhag HK heimilanna um jólin, með stuðli upp á 17.“

Guðný Jenný Ásmundsdóttir varði ótrúlega vel í marki ÍBV þar sem hún varði 21 skot, það er í raun ótrúlegt að HK sigri leikinn þrátt fyrir að Jenný hafi verið í þessu stuði í markinu.

„Markvarslan og vörn hjá þeim var frábær. Það er ekkert grín að koma boltanum framhjá Ester þarna fyrir framan vörnina, þó að þetta líti út fyrir að vera einfalt af bekknum og ofan úr stúku. Það er alltaf yfirtala hinum megin á vellinum ef það tekst en það er ekkert oft sem það tekst. Þær eru komnar með Örnu í hjarta varnarinnar og þú skýtur ekkert yfir hana auðveldlega, þetta ÍBV-lið á eftir að spila sig betur og betur saman þegar líður á. Arna á eftir að komast betur inn í þetta og Sunna á eftir að koma sér í betra stand og meira inn í þetta, ÍBV á eftir að gera flotta hluti.“

Dómarar leiksins, þeir Bóas Börkur Bóasson og Ingvar Guðjónsson leyfðu mikla hörku og voru einungis tvær brottvísanir í leiknum, hvað fannst Vilhelm um þá línu sem þeir settu og héldu út allan leikinn?

„Þeir héldu henni, það er það eina sem ég bið um. Mér er alveg sama hvaða lína er tekin svo framarlega sem hún er í gegnum allan leikinn, ég bið ekki um meira. Það er erfitt að dæma þetta sport og aðdáunarvert þegar dómarar ná að halda línu.“

til baka