fös. 16. nóv. 2018 23:32
Slökkviliðsmenn á vettvangi í kvöld.
Gríðarlegar sprengingar í húsinu

„Þegar við komum á staðinn þá var efri hæð hússins alelda. Við fórum í að sækja okkur mikið vatn og verja næstu hús,” sagði Sigurður Lárus Fossberg, varðstjóri í Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og stjórnandi aðgerða á vettvangi stórbrunans við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði. 

Hann sagði að mikill eldsmatur hafi verið í húsinu, enda trésmíðaverkstæði þar til húsa. Tilkynning barst um eldinn kl. 22:12 í kvöld. 

 

„Það voru gríðarlegar sprengingar í húsinu þegar við komum og við fórum ekkert nálægt þessu. Héldum mannskapnum frá og fórum í varnarvinnu,” sagði Sigurður.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/11/16/storbruni_i_hafnarfirdi/

Það tókst að verja nærliggjandi hús. Sigurður sagði að þeir vonuðu að missa eldinn ekki á neðri hæð hússins, þó var kominn þangað eldur.

Aðstæður voru erfiðar til slökkvistarfa, mjög hvasst, mikill hiti, gríðarlegur reykur og neistaflug frá eldinum. Húsið stendur við tvær götur og þurfti að vinna slökkvistarfið frá annarri hliðinni.

 

„Við erum með allt okkar lið hérna, hringdum út alla menn á frívakt og erum með allar stöðvar hérna,“ sagði Sigurður.

Uppfært 23:50

Varðstjóri hjá slökkviliðinu segir í samtali við mbl.is að um 50 til 60 slökkviliðsmenn séu á vettvangi. Aðstæður séu erfiðar og ljóst að aðgerðir munu standa yfir í alla nótt. Í húsinu er mikill eldsmatur, s.s. timbur og málningaefni. Þá er mjög hvasst á vettvangi og þannig spáir í alla nótt. Vindáttin þó þannig að það eru litlar líkur á því að eldurinn nái að teygja sig yfir í nærliggjandi hús. 

 

 

 

 

 

til baka