þri. 22. jan. 2019 18:45
Flugræninginn féllst á að lent yrði í Khanty-Mansyisk, en honum var sagt að vélin þyrfti meira eldsneyti ætti að fljúga henni til Afganistan.
Gerði tilraun til flugráns

Flugvél sem var á leið frá Surgut í Síberíu til Moskvu var lent á flugvellinum í bænum Khanty-Mansyisk eftir að einn farþeganna um borð gerði tilraun til að ræna vélinni og krafðist þess að henni yrði flogið til Afganistan.  

Á Airotime New Hub, fréttavef sem sérhæfir sig í fréttum af flugi, segir að vélin hafi breytt um stefnu kortéri eftir að hún fór í loftið.

NAC, sem sér um rannsóknir á meintum hryðjuverkum í Rússlandi, segir farþegann hafa krafist þess að stefnu vélarinnar yrði breytt. Er maðurinn sagður hafa fullyrt að hann væri vopnaður en hann reyndi að brjótast inn í flugstjórnarklefann.

Áhöfn flugvélarinnar tókst hins vegar að fá hann til að fallast á að lent yrði í Khanty-Mansyisk þar sem vélin þyrfti að taka meira eldsneyti ætti að fljúga henni til Afganistan.

Rússneska Interfax-fréttastofan segir manninn nú vera í haldi lögreglu og segir að enginn hafi meiðst við flugránstilraunina.

til baka