fim. 18. apr. 2019 10:00
Ævar Þór Benediktsson er spenntur fyrir næsta leikári hjá Þjóðleikhúsinu þegar Þitt eigið leikrit 2 verður sett upp.
Tímaferðalag Ævars á svið

Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur og leikari, og Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri hafa skrifað undir samkomulag um að ný gerð af Þínu eigin leikriti verði frumsýnd á næsta leikári.

„Nýja leikritið mun verða byggt á bók Ævars Þitt eigið ævintýri – Tímaferðalag, en bókaflokkurinn hefur notið mikilla vinsælda. Þitt eigið leikrit – Goðsaga, hefur nú gengið fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu í vetur og ennþá er hægt að næla sér í miða á verkið,“ segir í fréttatilkynningu frá Þjóðleikhúsinu.

 

„Tímaferðalagið verður lengra en Goðsagan, og það verða ennþá fleiri möguleikar, meira að segja geimferðir og grameðlur og allt...,“ er haft eftir Ævari í tilkynningunni. „Þitt eigið leikrit er einstök upplifun, við vitum ekki til þess að leikverk þar sem áhorfendur ráða jafn miklu um framvinduna og tæknilausnir eru jafn flóknar hafi verið sett upp áður í heiminum. Með tímavél að vopni eru möguleikarnir óendanlegir; allt frá upphafi alheimsins til endaloka mannkyns.”

Það er sama listræna teymið sem stendur að baki sýningunni og vann þrekvirki við sviðsetningu fyrsta leikritsins, Goðsögunnar sem nú er á fjölunum, og leikstjóri beggja sýninga er Stefán Hallur Stefánsson.

til baka