fim. 18. apr. 2019 08:13
Flughermir hjá Icelandair.
Ekki gerðar tímakröfur á flugmenn

Þegar Icelandair ræður flugmenn til starfa er ekki gerð grunnkrafa um tiltekinn fjölda flugtíma, heldur hafa þær kröfur með tímanum vikið fyrir öðruvísi kröfum.

Kröfurnar sem hafa bæst við í staðinn, að sögn Hauks Reynissonar, flugrekstrarstjóra Icelandair, eru samevrópskar kröfur um þjálfun í svonefndu fjölstjórnarumhverfi og einnig krafa sem var innleidd sérstaklega hjá Icelandair, sem er um þjálfun í flughermi í þotuumhverfi.

„Það sem þetta hefur sýnt okkur er að flugmenn eru að koma miklu betur út úr þjálfun í dag með þessum kröfum heldur en einhverjum tímakröfum fyrir einhverjum árum,“ segir hann.

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær gagnrýndi Guðbrandur Jónsson, fv. flugstjóri, að flugvél Ethiopian Airlines hafi stýrt aðstoðarflugmaður með aðeins 200 flugtíma skráða. Slíkt fyrirkomulag kallaði Guðbrandur „flugkennslu með farþega“.

Haukur segir slíkar yfirlýsingar ekki standast. „Það fer enginn um borð og flýgur flugvél með farþega og er ekki útskrifaður úr flugnámi, það er bara kolólöglegt,“ segir Haukur. Fyrirkomulagi flugnáms hafi víða verið breytt og kröfurnar síður tímakröfur núna. Tímakröfurnar hafi verið sía á sínum tíma, frekar en gæðakrafa, og nú sé þeirrar síu ekki þörf. 600 flugmenn sóttu um hjá Icelandair í fyrra og 47 voru ráðnir, að sögn Hauks.

Örnólfur Jónsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir að tímakrafan hafi víða verið lækkuð en þó séu kröfurnar engu minni. Flugtímar eigi aðeins við flug í eiginlegum flugvélum en ekki þjálfun sem menn hafi hlotið í flughermum, sem er engu síðri. Þannig hafi ekkert verið óeðlilegt við að aðstoðarflugmaðurinn í umræddu slysi hafi haft 200 flugtíma, hann hafi bara verið nýr flugmaður í starfi en engu að síður hlotið fullgilda þjálfun fyrir það.

Enn eru Boeing 737 MAX-8-vélar kyrrsettar um allan heim. Endanlegri rannsókn er ekki lokið.

 

til baka