mán. 20. maí 2019 20:17
Lilja Dögg mennta- og menningarmálaráðherra mælir senn fyrir nýju fjölmiðlafrumvarpi. Hún segir að til greina komi að taka RÚV af auglýsingamarkaði og bæta tekjutapið með öðrum hætti.
Hugmynd að RÚV fari af auglýsingamarkaði

„Ein hugmynd sem hefur verið rædd er að RÚV fari af auglýsingamarkaði. Það yrði þó gert upp, þannig að RÚV yrði ekki fyrir tekjumissi vegna þessa,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í Kastljósinu á RÚV í kvöld.

Til umræðu var fjölmiðlafrumvarpið sem Lilja mun mæla fyrir á yfirstandandi þingi. Í dag var það birt í breyttri mynd og lagt fyrir þingið. Þar stendur að til standi að endurskoða stöðu RÚV á fjölmiðlamarkaði áður en samningur ríkisins við RÚV rennur út um áramótin.

Frétt mbl.is

Margir hafa mælt fyrir því að breyta tekjuuppbyggingu RÚV með einhverjum hætti, draga RÚV út af auglýsingamarkaði alveg eða alla vega draga úr umfangi þess á honum. „Við erum að hefja umræður um þennan samning. En það er ljóst í mínum huga að við viljum hafa sterkt RÚV,“ sagði Lilja.

„Ríkisútvarpið er á auglýsingamarkaði og við höfum heyrt talsverða gagnrýni hvað það varðar. En það er alveg á hreinu í mínum huga að við erum ekki að fara í neinar aðgerðir sem veikja RÚV. RÚV nýtur mikils trausts meðal landsmanna og mér finnst það bara býsna gott,“ sagði Lilja.

Þannig, sagði hún, að ef til þess kæmi að taka RÚV af auglýsingamarkaði, yrði RÚV bætt tekjutapið. Það yrði þá að vera gert með hækkuðu útvarpsgjaldi eða öðrum opinberum leiðum.

Lilja sagði þá að í Danmörku, þar sem umsvif ríkismiðilsins voru minnkuð á auglýsingamarkaði, hafi það gerst að það fé sem annars hefði farið þangað hafi farið til erlendra fyrirtækja, eins og Google og Facebook. Þar auglýsi margir. Hún sagði því til skoðunar að hækka skatta á kaup á slíkum auglýsingum. „Þetta er eitt af því sem við höfum verið að skoða og athuga. Það sem hefur verið að gerast á öðrum Norðurlöndum, eins og Danmörku, er að mikið af auglýsingatekjum eru ekki lengur hjá þeim,“ sagði hún.

Efni fyrir almenning

Fjöldi umsagna frá nærrum því öllum fjölmiðlum landsins rötuðu inn á samráðsgátt stjórnvalda við gerð frumvarpsins. Lilja sagði í Kastljósinu að hún hafi viljað koma þessu inn í þingið fyrir lok þess svo að fyrstu endurgreiðslurnar gætu átt við árið 2019. „Öll umræða sem tengist fjölmiðlum á Íslandi er oft viðkvæm. Ég vildi hafa vaðið fyrir neðan mig og koma frumvarpinu í gegnum flokkana,“ sagði Lilja.

Mikill fjöldi fjölmiðla verður styrkhæfur miðað við skilyrðin sem sett eru fram í frumvarpinu. Eftirlitið með styrkhæfi fjölmiðlanna kann að verða mikið starf. Lilja sagði að umfang eftirlitsins hafi verið metið hjá Fjölmiðlanefnd og að einum starfsmanni verði bætt við. „Ég tel að þetta muni skila sér. Þeir sem hafa verið að vinna að þessu fullvissa mig um að ekki þurfi fleiri en einn starfsmann til viðbótar,“ sagði Lilja.

Um þröng skilyrði sem hafa verið gagnrýnd sagði Lilja að miðað hafi verið við að verið væri að styrkja efni sem væri ætlað almenningi en ekki þrengri hópum. Hún sagði einnig að ekki væri æskilegt fyrir hana eina að meta styrkhæfi hvers fjölmiðils fyrir sig. Og svo ætti málið eftir að fara fyrir nefnd og að ekki væri loku fyrir það skotið að frekari breytingar yrðu gerðar á frumvarpinu þar.

 

til baka