mán. 20. maí 2019 21:40
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um sex mánaða nálgunarbann yfir karlmanni sem grunaður er um að hafa beitt fyrrverandi sambýliskinu sína líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi.
Nálgunarbann vegna dreifingar nektarmynda

Landsréttur staðfesti í dag nálgunarbann yfir karlmanni sem grunaður er að hafa beitt fyrrverandi sambýliskonu sína líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi. Þegar konan vísaði manninum af heimilinu sparkaði hann í hana, hellti yfir hana mjólk og sendi nektarmyndir af henni á yfir 200 netföng.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fór fram á nálgunarbannið í lok apríl en maðurinn krafðist þess að ákvörðunin yrði borin undir dómstóla. Héraðsdóms Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann 9. maí síðastliðinn og var manninum gert að sæta sex mánaða nálgunarbann gagnvart fyrrverandi konu sinni.

Sambýliskona mannsins lagði fram kæru vegna heimilisofbeldis í janúar. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að þegar konan sagði við manninn að hann gæti ekki dvalið lengur á heimilinu hafi hann tryllst, sparkað í hana og hellt yfir hana mjólk. Þá sló hann son þeirra utan undir þegar hann reyndi að stöðva föður sinn. Í febrúar lagði konan fram kæru vegna kynferðisbrots þar sem hún lýsir því að maðurinn hafi beitt hana miklu andlegu ofbeldi síðustu fjögur ár.

Rannsókn lögreglu leiddi meðal annars í ljós að frá því í febrúar voru 121 tölvupóstar sendir sem innihéldu nektarmyndir af konunni á 235 mismunandi póstföng. Afrit af póstunum voru send á konuna. Nálgunarbannið veitir konunni ekki vörn gegn dreifingu kynlífsmynda, að því er segir í úrskurðinum, en brotið felur samt sem áður í sér „grófa atlögu að friðhelgi og æru þeirra sem fyrir verða“. 

Í úrskurði héraðsdóms, sem Landsréttur hefur staðfest, kemur fram að samkvæmt rannsóknargögnum er rökstuddur grunur um að konunni stafi ógn af manninum og að hún hafi sætt ofbeldi og ógnunum af hans hálfu og hann valdið henni mikilli vanlíðan.

Næstu sex mánuði má maðurinn ekki koma á eða í námunda við heimili konunnar sem afmarkast af 50 metra radíus umhverfis heimilið. Þá má hann ekki veita henni eftirför, nálgast vinnustað, almannafæri eða setja sig í samband við hana með nokkrum hætti.

 

til baka