þri. 16. júlí 2019 19:58
Gréta Arnarsdóttir, klósettvörður í hjáverkum, lætur vel af starfinu. Milli anna les hún í bók.
250 krónur að pissa í Hörpu

Klósettgjald hefur verið tekið upp í Hörpu á ný. 250 krónur þurfa gestir og gangandi, sem hafa náð 16 ára aldri, að reiða fram til að fá að létta af sér á tilkomumiklu salerninu í kjallara tónlistarhússins.

Gréta Arnarsdóttir, þjónustufulltrúi í Hörpu og klósettvörður á köflum, segir þónokkra umferð vera um salernin. „Ætli þetta séu ekki svona tuttugu gestir á klukkutíma,“ segir hún hugsandi.  Milli þess gefst henni kostur á að glugga í bókina The Girl in the Road, sem fjallar um stelpu sem ferðast yfir úthafið á stálslöngu sem framleiðir orku. Rukkað er frá morgni til klukkan fimm á daginn, en eftir það eru klósettin öllum opin.

Þau sem sækja viðburði í húsinu fá þó frítt gegn framvísun aðgangsmiðans, og sama gildir um viðskiptavini kaffi- og veitingastaðanna. Þeim síðarnefndu verður þó að treysta, og veltir óprúttinn blaðamaður því fyrir sér hvort eftirlit sé haft með því að meintir gestir þeirra hafi í raun og veru keypt kaffið.

 

 

Aðspurð segir Gréta að auðvitað séu margir sem sjái ástæðu til að kvarta yfir verðlagningunni, og hún hafi vissa samúð með þeim. Það séu einkum Íslendingar, sem eru ekki vanir öðru en að fá að ganga örna sinna á kostnað staðarhaldara. En klósettpappírinn kostar, og sápan líka.

Flestir greiða þó möglunarlaust og á meðan á spjalli stendur afgreiðir Gréta tvo viðskiptavini, einn þýskan ferðalang og aðra íslenska konu, sem borga bæði með reiðufé. „Þetta er dýr spræna,“ segir konan reyndar þegar verðlagningin berst í tal.

Klósettmál Hörpu hafa áður ratað í fjölmiðla, en tekið var upp á samskonar gjaldtöku síðustu sumur. Árið 2017 var gjaldið 300 krónur, en lækkað í 250 krónur síðasta sumar og er óbreytt í sumar. Hætta á gjaldtöku aftur í haust.

Klósettvarslan er þó ekki fullt starf. Þjónustufulltrúar Hörpu, sem hafa aðstöðu á jarðhæðinni, skipta þessu með sér í hjáverkum. Ef 20 gestir borga sig inn á klukkustund skilar það Hörpu um 5.000 krónum á tímann, sem dugir kannski fyrir launakostnaði, en varla miklu meiru.

Í samtali við mbl.is í fyrra sagði Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, tilganginn þó tvíþættan: að mæta kostnaði við salernin og að bæta ásýnd þeirra. Ætla má að nokkuð sparist í þrifkostnað og klósettpappírgjöld þegar gjaldtakan hefst og aðsókn minnkar eftir því.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/06/25/kostar_a_ny_ad_nota_salerni_i_horpu/

 

til baka