mið. 16. okt. 2019 16:15
Þorsteinn Víglundsson segir að tíma þingsins hafi verið sóað.
Barnaskapur og sóun á tíma þingsins

„Á tungumáli vinnandi fólks, sem vinnur heiðvirða vinnu, heitir þetta sóun á tíma þingsins, þetta heitir barnaskapur, þetta heitir að það skipti öllu máli hvaðan hlutirnir koma, en ekki hvernig þeir hljómi,“ sagði Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar í umræðum um störf þingsins í Alþingi í dag.

Tilefnið var það að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur sagt að til standi að breyta mannanafnalögum í frelsisátt með nýju frumvarpi, en flestir þingmenn ríkisstjórnarinnar greiddu atkvæði gegn frumvarpi stjórnarandstöðuflokka um málið er það var borið upp til atkvæða í sumar.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/06/20/snyst_um_mannrettindi/

Þorsteinn ræddi málið og sakaði nefndarmenn úr röðum ríkisstjórnarflokkanna um að hafa ekki tekið þátt „í að breyta málinu með þeim hætti að það væri viðkomandi flokkum að skapi.“

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/06/21/atti_simtol_heilu_naeturnar_um_mannanofn/

„Hæstvirtur dómsmálaráðherra boðar að nú skuli koma nýtt mannanafnalagafrumvarp þar sem frelsið skuli haft í forgrunni, og ég óska henni auðvitað alls hins besta í þessu, en minni hana um leið á að hennar eigin flokksfélagar, eða 10 þeirra, kolfelldu slíkt mál hér í þinginu í vor, ásamt öllum hinum frelsisunnandi þingmönnum Miðflokks, Framsóknar og Vinstri grænna, sem gátu alls ekki hugsað sér það að einstaklingar fengju að ráða eigin nafni,“ sagði Þorsteinn.

Í viðtali við Vísi í dag segir Áslaug Arna að hún sé bjartsýn á að frumvarpið sem ráðuneyti hennar er með í smíðum fái brautargengi hjá hennar eigin þingflokki. „Ég mun skoða það mjög alvarlega að leggja mannanafnefnd niður,“ segir dómsmálaráðherra meðal annars í viðtalinu.

til baka