mið. 16. okt. 2019 16:20
Nafnið TM hefur meðal annars verið notað í merki Tryggingamiðstöðvarinnar og í vefslóð félagsins.
Leggja til breytingu á nafni Tryggingamiðstöðvarinnar

Hluthafafundur Tryggingamiðstöðvarinnar mun í næsta mánuði ákveða hvort tillaga stjórnar félagsins um nafnabreytingu verður samþykkt. Lagt er til að nafni félagsins verði breytt úr Tryggingamiðstöðinni í TM, en félagið hefur lengi notað þá skammstöfun, meðal annars í merki sínu og vefslóð.

Á hluthafafundinum verður auk þess rætt um ákvörðun stjórnarinnar um að kaupa allt hlutafé í lánafyrirtækinu Lykli fjármögnun, líkt og greint var frá í síðustu viku. Samhliða því að greidd verða atkvæði um kaupin er lagt til að samþykktum félagsins verði breytt á þann veg að fjárfestingastarfsemi sé bætt við þá grein sem tilgreinir tilgang félagsins.

mbl.is

Til að fjármagna kaupin á Lykli er einnig óskað eftir heimild til að hækka hlutfé félagsins um allt að 125 milljónir hluta með útgáfu nýrra hluta.

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is vegna nafnabreytingarinnar segir að hún haldist í hendur við breytt hlutverk félagsins. „Nafnabreytingin er tilkomin vegna breytingar á uppbyggingu félagsins. Skráða félagið verður eignarhaldsfélag sem á vátryggingafélög og fjármögnunarfélag og við metum það svo að vegna ákvæða 1. mgr. 11. gr. laga um vátryggingastarfsemi megi heiti félagsins ekki vísa til tryggingastarfsemi.“

 

 

til baka