fim. 14. nóv. 2019 21:42
Olivier Giroud skorar sigurmarkið.
Frakkar í erfiðleikum með Moldóva

Frakkland hafði betur gegn Moldóvu, 2:1, er liðin mættust í H-riðli Íslands í undankeppni EM 2020 á Stade de France í kvöld. Bjuggust flestir við stórsigri Frakka, en sú varð ekki raunin. 

Vadim Rata kom Moldóvu gríðarlega óvænt yfir á níundu mínútu en Raphael Varane jafnaði á 35. mínútu og var staðan jöfn í hálfleik, 1:1. Rétt eins og þegar Frakkar mætu Íslendingum á Laugardalsvelli, skoraði Olivier Giroud sigurmark Frakka úr víti, ellefu mínútum fyrir leikslok. 

Í hinum leik kvöldsins í riðli Íslands skildu Albanía og Andorra jöfn, 2:2. Bekim Balaj kom Albaníu yfir snemma leiks en Christian Martinez jafnaði fyrir Andorra á 18. mínútu og var hann aftur á ferðinni til að koma Andorra óvænt yfir á 48. mínútu. Rey Manaj jafnaði hins vegar á 55. mínútu og þar við sat. 

Frakkar eru í toppsæti riðilsins með 22 stig, Tyrkland í öðru sæti með 20 stig, Ísland í þriðja með 16, Albanía í fjórða með 13 stig, Andorra í fimmta með 4 stig og Moldóva á botninum með 3 stig. 

til baka