fös. 15. nóv. 2019 17:20
Málverk Artemisiu Gentileschi.
Metfé fyrir Lúkretíu Gentileschi

Metverð var greitt á uppboði í París í vikunni fyrir málverk eftir ítalska barokkmálarann Artemisiu Gentileschi (1593-1653), 4,8 milljónir punda, um 660 milljónir kr.

Málverkið sýnir rómversku hetjuna Lúkretíu sem framdi sjálfsmorð eftir að hafa verið nauðgað og hafði verkið verið í einkaeigu í Frakklandi áratugum saman án þess að eigendurnir áttuðu sig á því hver væri höfundurinn.

Afar fátítt er að verk eftir Gentileschi komi á uppboð en sívaxandi áhugi hefur verið á verkum hennar og ferli en hún var ein örfárra kvenna sem náðu frama sem listmálarar á barokktímanum en hún var undir miklum áhrifum af stíl Caravaggios, sem var vinur föður hennar. Flest verka hennar eru í söfnum á Ítalíu.

Gentileschi var sjálfri nauðgað af listamanni sem faðir hennar hafði fengið til að segja henni til og fjalla mörg verka hennar um konur sem beittar höfðu verið ofbeldi.

The National Gallery í London mun setja upp sýningu á verkum listakonunnar í apríl á næsta ári.

til baka