sun. 17. nóv. 2019 17:10
Joe Biden fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og Donald Trump forseti Bandaríkjanna.
Trump: of langt gengið að kalla Biden „óðan hund“

Donald Trump Bandaríkjaforseti kom Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda til varnar í dag. Var Trump þar að bregðast við lýsingu norður-kóresku ríkisfréttaveitunnar KNCA frá því á föstudag. Fréttaveitan hafði líkt Biden við „óðan hund“ sem eigi að „berja til bana“, eftir að hann hafi vogað sér að „bera út róg um leiðtoga“ Norður-Kóreu.

Ekki er hægt að segja að Trump haf brugðist við lýsingunni á varaforsetanum fyrrverandi af neinum ofsa. Sagi hann á Twitter of  langt gengið að kalla Biden „óðan hund“. „Joe Biden kann að vera syfjaður og hægur“, sagði Trump sem oft hefur kallað hann Sleepy-Joe. „En hann er ekki óður hundur. Hann er satt best að segja betri en það,“ sagði forsetinn.

Ekki er ljóst hvernig Biden vakti reiði norður-kóreskra ráðamanna, en viðbrögðin komu eftir að kosningaherferð Biden var kynnt. Þar fordæmir hann utanríkisstefnu Trumps, sem hann segir lofa „einræðisherra og harðstjóra á sama tíma og hann ýti bandamönnum til hliðar.“ 

Orðið „harðstjóri“ heyrist í auglýsingunni á sama tíma og mynd birtist af Trump og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu birtist á skjánum. Eru leiðtogarnir þar að takast í hendur á fundi sínum í Singapore í fyrra.

til baka