fim. 12. des. 2019 18:31
Björgunarsveitir hafa haft í nógu að snúast að undanförnu, m.a. í Húnaþingi vestra.
Opinberir innviðir hafi allir brugðist

Sveitarstjórn Húnaþings vestra segir að allir helstu opinberu innviðir samfélagsins hafi brugðist í því veðuráhlaupi sem núna gengur yfir.

Í bókun sveitarstjórnarinnar kemur fram að sveitarfélagið hafi verið rafmagnslaust í rúmlega 40 klukkustundir. Hluti þess sé enn ekki kominn með rafmagn og ekki sé vitað hversu lengi það ástand vari. Verulegt tjón hafi jafnframt orðið hjá íbúum.

Grunnstofnanir illa undirbúnar

„Það er algerlega óviðunandi að grunnstofnanir samfélagsins, RARIK, Landsnet og fjarskiptafyrirtækin hafi ekki verið betur undirbúin og mönnuð á svæðinu en raun ber vitni. Aftur á móti voru Björgunarsveitirnar og Rauði krossinn, sem rekin eru í sjálfboðavinnu, vel undirbúin og komin með tæki og fólk á staðinn áður en veðrið skall á,“ segir í bókuninni.

Þar kemur einnig fram að óásættanlegt sé að tengivirkið í Hrútatungu hafi verið ómannað þrátt fyrir yfirlýsingar Landsnets um annað. Gerir sveitarstjórnin þá grundvallarkröfu að á svæðinu sé mannafli sem getur brugðist við með skömmum fyrirvara.

RÚV brugðist algjörlega

Ríkisútvarpið er einnig sagt hafa brugðist algjörlega þegar horft er til öryggishlutverks þess.  

„Dreifikerfi RÚV lá niðri víða í sveitarfélaginu og náðust sendingar illa eða alls ekki. Almennri upplýsingagjöf til íbúa um stöðu og horfur var ekki sinnt. Litlar sem engar fréttir bárust frá Húnaþingi vestra þrátt fyrir að veðuraðstæður væru hvað verstar á þessu svæði og útvarpið nær eina leið íbúa til að fá upplýsingar.“

Þá segir í bókuninni að grafalvarlegt sé að engin starfsstöð lögreglu sé á svæðinu, auk þess sem lýst er yfir áhyggjum yfir því að engin varaaflstöð sé við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga.

„Sveitarstjórn Húnaþings vestra mun á næstu dögum óska eftir fundum með RARIK, Landsneti, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, lögreglu og stjórnvöldum,“ segir í bókuninni.

 

til baka