fim. 12. des. 2019 20:38
Jóhann og Guðný Helga, bændur á Bessastöðum á Heggstaðanesi.
Ótækt að „vera í lausu lofti svo dögum skipti“

Rúmlega tveggja daga rafmagnsleysi hefur haft umtalsverð áhrif á bændurna Jóhann Birgi Magnússon og Guðnýju Helgu Björnsdóttur á Bessastöðum á Heggstaðanesi við Miðfjörð. Hafa þau þurft að hella niður um 2.000 lítrum af mjólk og sjá fram á umtalsvert verri nyt í kúnum til frambúðar.

Eitt versta veðrið á þriðjudaginn gekk yfir svæðið, en Guðný segir að þau hafi aldrei upplifað jafn rosalega veðurhæð eins og var á þriðjudaginn og langt rafmagnsleysi á þeim 25 árum sem þau hafa haldið bú á Bessastöðum. Um miðjan dag á þriðjudaginn datt rafmagnið út og segir Jóhann að þau hafi alla tíð vitað að rafmagnið gæti farið af í 4—6 klukkustundir. „En að við séum í lausu lofti svo dögum skipti, það er eitthvað sem við gátum engan veginn búist við,“ segir hann og bætir við að slíkt gangi ekki upp fyrir búskapinn.

Jóhann og Guðný ræddu við mbl.is síðdegis í dag, en skömmu síðar var rafmagn komið á sveitina í kjölfar þess að hægt var að koma rafmagni á Hrútafjarðarlínu frá Hrútatungu.

Mjólkin seytlar í flórinn

Þegar mbl.is bar að garði voru þau að sinna kúm og geldneytum í gripahúsinu og reyna að gera við stóra hurð á hlöðunni sem bilaði í veðrinu. Vegna rafmagnsleysisins þurftu þau að athafna sig í myrkri, en Jóhann segir að ennisljós hafi reynst þeim vel síðustu daga.

Þau halda 30 mjólkurkýr, um 30 geldneyti og 15 hross, en Jóhann segir að mest áhrif verði á mjólkurkýrnar. Þær hafi nú verið troðjúra í á þriðja sólarhring, en ógjörningur var að reyna að handmjólka þær að hans sögn. Því standa þær með full júgur og seytlar mjólkin niður í flórinn. Því til viðbótar þurftu þau að hella niður um 2.000 lítrum sem höfðu verið mjólkaðir. 

 

 

Nytin munu líklega minnka um alla vega 25% og hætta á júgurbólgu

Stærsti skaðinn er þó að sögn Jóhanns að þegar kýr eru troðjúra í nokkra daga minnka í þeim nyt til frambúðar. Þannig segir hann að ef allt gangi að óskum megi búast við því að kýr sem hafi áður haft 40 lítra dagsnyt muni ná upp 30 lítra dagsnytum, eða um 25% minni nyt.

„Það er náttúrulega búið að höggva dálítið í framleiðslugetuna þar sem nyt kúnna mun aldrei nást upp aftur í kjölfarið á þessu mikla inngripi sem það er þegar ekki hefur tekist að mjólka kýrnar á þriðja sólarhring,“ segir hann.

Til viðbótar aukist hætta á júgurbólgu umtalsvert í þessu ástandi, en þegar mjólk lekur um flórinn séu mun meiri líkur á að júgurbólgan smitist.

Jóhann er hins vegar mun rólegri varðandi hrossin, enda séu þau vön slæmu veðri þegar þau eru úti við. „Hrossin eru alin upp við að standa af sér veðrið og svo kemur nýr dagur og þá er ástandið orðið betra hjá þeim,“ segir hann.

Girðingarnar margar hverjar eyðilagst

Það eru þó ekki bara tjón í tengslum við dýrin sem þau sjá fram á. Jóhann bendir út á tún hjá sér þar sem girðingar eru hálfar á kafi, en víða er gríðarleg ísing á hangandi á girðingunum. Segir hann að líklega sé stór hluti þeirra eyðilagður, enda séu þær ekki gerðar til að geta borið tugfalda, jafnvel hundraðfalda þyngd sína.

 

 

Hitaveita er á Heggstaðanesi, en engu að síður hefur verið heitavatnslaust síðan rafmagnið fór af, en heitavatnsdælur sem dæla vatninu ganga fyrir rafmagni. Guðný segir að þau hafi þurft að færa sig úr svefnherberginu niður á neðri hæð íbúðahússins vegna kulda og hafi síðustu daga hafist við í suðurenda hússins, sem sé við skjólhlið þess.

Skoða þarf hvað hægt er að gera í framtíðinni

Rafmagnsleysið á Heggstaðanesi og víðar á Norðvesturlandi má rekja til þess að spennivirki í Hrútatungu sló út. Var það vegna mikillar ísingar og seltu sem fauk af hafi inn og safnaðist á spennivirkið. Guðný segir að skoða þurfi hvort eitthvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir svona langt rafmagnsleysi þegar vitað er að stefni í ofsaveður, sérstaklega þegar mikil hætta sé af ísingu. Nefnir hún að það hafi tekið um 9 klukkustundir fyrir starfsmenn Rarik að komast frá Hvammstanga að spennivirkinu, leið sem jafnan tekur 30 mínútur að keyra. Þá segir Jóhann að skoða þurfi hvort hægt sé að nota einhverja svipaða tækni og gert er með þotur og afísingarefni. Hvað sem gert sé, sé ljóst að gera þurfi eitthvað svo þetta geti ekki endurtekið sig.

til baka