fim. 12. des. 2019 23:20
Bóndi á Stóru-Ásgeirsá þurfti að grafa upp hross sín.
„Hún á eftir að braggast sem betur fer“

„Hún á eftir að braggast sem betur fer,“ segir Magnús Ásgeir Elíasson, bóndi á Stóru-Ásgeirsá í Víðidal, um hryssu sína Freyju sem hann gróf upp úr snjó í morgun. Þegar hann fór að vitja hrossa sinna í morgun sá hann rétt í snoppuna á henni upp úr snjóskaflinum.

Magnús á góða nágranna sem hjálpuðu honum að moka hana upp úr snjónum og koma henni í hús. Í gærdag þegar veðrið var öllu verra bjargaði hann 10 hrossum sem voru föst í skafli. 

 

„Þegar hross lenda í svona gefast þau strax upp,“ segir hann. Hann kveðst heppinn að hafa fundið hrossin í gær og merina í morgun og náð að bjarga þeim. Þrátt fyrir mikla úrkomu og snjó sé í raun eingöngu einn stór skafl á þeim stað þar sem hrossin voru föst.

Frétt mbl.is

„Þetta er ömurlegt og ég vona að enginn lendi í þessu,“ segir hann. Undir venjulegum kringumstæðum væsir ekki um útigangshross á þessum árstíma ef þau hafa aðgang að góðu heyi og skjóli, segir Magnús. Óveðrið sem gekk yfir landið hafi verið óvenjulegt og fæstir hrossabændur hafi tök á að koma öllu stóði sínu inn í skjól í slíkri veðráttu, segir Magnús.   

Á bænum hefur verið rafmagns- og hitaveitulaust í um 30 klukkustundir. Rafmagnið komst aftur á í morgun.  

 

til baka