mið. 29. jan. 2020 07:30
BA aflýsir öllu flugi til og frá Kína

British Airways hefur aflýst öllu beinu flugi til og frá meginlandi Kína vegna kórónaveirunnar. Forsvarsmenn flugfélagsins tilkynntu þetta eftir að utanríkisráðuneyti Bretlands mælti gegn öllum nema nauðsynlegum ferðalögum til Kína.

Verið er að flytja útlendinga frá borginni Wuhan og nágrenni en yfir 100 eru látnir og dreifist farsóttin víða. Smit hafa verið staðfest í 16 löndum fyrir utan Kína en þar í landi eru yfir sex þúsund staðfest smit.

Rússneska flugfélagið Urals Airlines hefur aflýst hluta af Evrópuflugi sínu, þar á meðal til Parísar og Rómar, vegna farsóttarinnar. Flugfélagið, sem er með höfuðstöðvar í Jekaterinborg í Úralfjöllunum, hefur aflýst öllu flugi til München, Parísar og Rómar sem og til japönsku borgarinnar Sapparo. Ekki verður flogið á þessa áfangastaði aftur fyrr en í vor.

Ástæðan fyrir því að þessir áfangastaðir urðu fyrir valinu er sú að þeir eru vinsælir meðal kínverskra ferðamanna. Áður hafði flugfélagið hætt við allt flug til Hainan-eyju í Suður-Kínahafi.

 

til baka