mið. 1. apr. 2020 14:13
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Samkomubannið gildi út apríl

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hyggst leggja það til við heilbrigðisráðherra í dag að þær aðgerðir og samkomubönn, sem verið hafa í gildi og áttu að gilda til 13. apríl, muni gilda áfram út apríl. 

Þetta kom fram á daglegum upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. 

„Við eigum eftir að ná toppnum og vonandi mun sú spá rætast að við náum honum fyrri hluta apríl, en í ljósi mikils álags á sjúkrahúsinu, þá sérstaklega gjörgæsludeildirnar, þá held ég að það sé óhjákvæmilegt að við höldum áfram þeim aðgerðum sem hafa verið í gangi og þeim samkomubönnum sem hafa verið hér,“ sagði Þórólfur. 

„Því mun ég leggja það til í dag við heilbrigðisráðherra að við munum halda áfram með þær aðgerðir, þau samkomubönn, sem hafa verið í gildi og áttu að gilda til 13. apríl, að þau muni áfram gilda út aprílmánuð. Seinni partinn í apríl verði þá endurskoðað hvað við munum gera.“

Hann tók fram að aðgerðirnar séu í sífelldri endurskoðun og það verði gert áfram í ljósi faraldursins, þ.e. hvort það þurfi að herða þær eða hugsanlega slaka á þeim. „Ég á ekki von á því að það verði gert þá en fyrr en eftir aprílmánuð og þá verður það kynnt nánar þegar þar að kemur hvernig það verður gert, í hversu mörgum skrefum og hvað það muni taka langan tíma.“

Nú reynir á úthaldið og samstöðuna

Þórólfur tók fram að nú reyni virkilega á úthaldið og samstöðuna. „Því skora ég á alla að standa saman um þær aðgerðir sem eru í gangi þannig að okkur takist sem best að hindra framgang þessarar sýkingar. Það er mikilvægt að við höldum þær leiðbeiningar sem gilda um hreinlæti, sýkingavarnir, fjarlægðarmörk og samkomutakmarkanir.

Og sérstaklega vil ég leggja áherslu á þær leiðbeiningar sem við höfum gefið út varðandi viðkvæma hópa. Það er mjög mikilvægt að við höldum áfram að standa vörð um það. Og það er mjög mikilvægt að þeir einstaklingar sem eru eitthvað veikir, með öndunarfærasýkingu, kvef, hita og hósta, að þeir loki sig af, fari ekki innan um fólk, fari ekki innan um viðkvæma hópa, geri vart við sig svo það sé hægt að taka frá þeim sýni og rannsaka,“ sagði sóttvarnalæknir. 

Þórólfur tók ennfremur fram, að veiran muni ekki virða frídaga eða páskana. Því sé mikilvægt að halda áfram með þessar aðgerðir. 

Þá lagði hann áherslu á mikilvægi sýnatöku hjá einstaklingum sem uppfylli skilyrði fyrir sýnatökum. Og benti um leið á sýntökur hjá Íslenskri erfðagreiningu sem séu að fara af stað með slembiúrtaksrannsókn til að kanna raunverulega dreifingu á veirunni í samfélaginu. Hann hvatti fólk til að taka þátt í þeirri rannsókn, sem muni gefa góða innsýn varðandi áframhaldið og næstu skref. 

 

 

 

til baka