mið. 1. apr. 2020 15:24
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
„Versta leiðin var valin, að gera ekki neitt

„Versta leiðin var valin, að gera ekki neitt. Þess vegna sagði ég mig úr stjórn,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sem sagði sig úr miðstjórn Alþýðusambands Íslands á mánudaginn síðasta. Ágreiningur var í miðstjórn ASÍ um aðgerðir vegna stöðu á vinnumarkaði vegna kórónuveirufaraldursins.  

Alþýðusam­bandið hafnaði til­lögu um að skerða mót­fram­lag at­vinnu­rek­enda í líf­eyr­is­sjóði tíma­bundið en þær aðgerðir hefðu átt að létta und­ir með fyr­ir­tækj­um í land­inu. Auk Ragnars Þórs sagði Vil­hjálmur Birg­is­son frá­far­andi 1. vara­for­seta ASÍ sig einnig úr stjórn. 

Harpa Sævarsdóttir, varaformaður VR sem átti einnig sæti í miðstjórn ASÍ, gerði slíkt hið sama í morgun. „Ég fylgi sannfæringu minni og ákvað að segja mig úr stjórninni,“ segir hún við mbl.is. Hún er sammála bæði Ragnari og Vilhjálmi um að það verði að gripa til aðgerða. VR er stærsta félagið innan Alþýðusambandsins. 

Ragnar segir að ljóst að grípa verði til einhverra aðgerða í ljósi stöðunnar sem blasir við. „Það hefði verið hægt að milda höggið aðeins með því að fresta tímabundið mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóðina. Það hefði ekki haft mikil áhrif á kjör launþeganna,“ útskýrir Ragnar.

Hann ítrekar að þessar aðgerðir hafi verið hugsaðar sem tímabundin lausn. „ASÍ ber ímyndaða hagsmuni lífeyrissjóðanna fyrir brjósti. Þetta sýnir nákvæmlega dekrið í kringum lífeyrissjóðina,“ segir Ragnar. Miðað við ástandið núna séu fjárfestingarmöguleikar lífeyrissjóðanna takmarkaðir og því óþarfi að óttast slíkt, að mati Ragnars. 

„Núna einbeitum við okkur að því að vinna sem best fyrir okkar félagsmenn. Við þurfum að bregðast við ástandinum sem er grafalvarlegt,“ segir Ragnar. Í kvöld er stjórnarfundur hjá VR þar sem farið verður yfir málið. 

Ragnar segir það ekki nýtt að núningur sé innan ASÍ en innan sambandsins eru mörg félög sem gæta ólíkra hagsmuna. Þar af leiðandi er ekki óalgengt að fólk sé ósammála um leiðir. „Auðvitað eru þetta slæmar fréttir fyrir ASÍ og niðurstaðan er ekki góð. En þetta var óhjákvæmilegt,“ útskýrir Ragnar Þór. 

 

 

til baka