þri. 26. maí 2020 07:37
Michele Gaeta opnaði gelato-ísbúð í Aðalstræti fyrir tveimur vikum og viðtökurnar hafa frábærar.
Íslendingar óðir í ítalskan ís í Aðalstræti

„Það er meira og meira að gera með hverjum deginum sem líður. Röðin var 50 metra löng þegar mest lét um helgina. Þetta var brjálað á föstudags- og laugardagskvöld – og allir ánægðir,“ segir Michele Gaeta ísgerðarmaður.

Michele opnaði fyrir tveimur vikum gelato-ísbúð á jarðhæð gömlu Moggahallarinnar í Aðalstræti 6. Nefnist búðin Gaeta. Viðtökurnar hafa verið afar góðar og þegar veðurguðirnir léku við landsmenn á laugardaginn kynntust margir gelato-ísnum í fyrsta sinn. Einhverjir höfðu á orði að þarna yrði ferðaávísun stjórnvalda eytt í sumar.

Michele er 27 ára og flutti til Íslands fyrir ári. Þegar hann fór að sakna gelato-íssins ákvað hann að setja á stofn eigin búð hér í samstarfi við vini sína í Bologna. Um er að ræða 25 ára gamalt fjölskyldufyrirtæki sem rekur nú tíu gelato-búðir þar í landi svo ekki þarf að efast um kunnáttuna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

 

til baka