þri. 26. maí 2020 08:18
Brautskráning stúdenta úr framhaldsskólum hér á landi nú á vordögum verður með talsvert öðru sniði en síðustu ár.
Útskriftir með breyttu sniði

„Þetta fer fram í Háskólabíói og við komumst af með tvær athafnir,“ segir Elísabet Siemsen, rektor Menntaskólans í Reykjavík (MR) um brautskráningar stúdenta úr skólanum í þessari viku.

Líkt og í öðrum löndum hefur kórónuveiran haft umtalsverð áhrif á skólahald og útskriftir hjá menntaskólum hér á landi. Hafa útskriftir verið haldnar með breyttu sniði auk þess sem færa hefur þurft nokkrar athafnir. Að sögn Elísabetar verður útskrift MR á sínum stað í ár en þó með örlítið breyttu sniði.

„Við komumst af með tvær hátíðir. Nemendur fá að taka með sér tvo forráðamenn og síðan verður hátíðinni streymt. Að auki verður salnum hólfaskipt og forráðamenn sem óska eftir tveggja metra reglu verða í viðeigandi hólfi,“ segir Elísabet og bætir við að ýmsar sviðsmyndir hafi verið skoðaðar þegar óvissan var sem mest. Um tíma kom til greina að halda átta útskriftir. „Við ákváðum strax að halda okkur við Háskólabíó. Fyrsta sviðsmyndin var átta mismunandi athafnir. Þegar ástandið fór hins vegar að skýrast var ljóst að við gátum verið með tvær athafnir. Ég er mjög glöð með það,“ segir Elísabet í umfjöllun um skólaútskriftir í Morgunblaðinu í dag.

 

til baka