þri. 26. maí 2020 09:51
Nýir kosningastaðir.
Kjörstöðum fjölgað vegna forsetakosninga

Borgarráð hefur samþykkt að fjölga kjörstöðum í Reykjavík um fjóra fyrir forsetakosningarnar 27. júní. Nýir kjörstaðir eru í Breiðholtsskóla, Dalskóla, Vesturbæjarskóla, og í Borgarbókasafninu í Kringlunni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni. Aðrir kjörstaðir verða eins og áður.

Breiðholtsskóli mun þjóna íbúum Bakka og Stekkja. Kjörhverfið afmarkast af Breiðholtsbraut til suðurs, Höfðabakka og Arnarbakka til austurs, Reykjanesbraut til vesturs og Elliðaá til norðurs. Kjósendur sem nú fara í Breiðholtsskóla fóru áður í íþróttamiðstöðina í Austurbergi.

Dalskóli þjónar íbúum í Úlfarsárdal og við Reynisvatnsás. Það eru íbúar norðar við ána og við Ásinn auk Haukdælabrautar, Gissurargötu, Döllugötu og Ísleifsgötu eða allir sem búa norðan við Reynisvatnsveg. Kjósendur voru áður í Ingunnarskóla.

Vesturbæjarskóli mun þjóna íbúum gamla Vesturbæjarins. Svæðið afmarkast af Hringbraut til suðurs og Hofsvallagötu og Ægisgötu til austurs. Kjósendur voru áður í Ráðhúsi.

Fjórði og síðasti kjörstaðurinn sem bætist við er Borgarbókasafnið í Kringlunni. Þessi kjörstaður afmarkast af Kringlumýrarbraut til austurs, Miklubraut til norðurs og Háaleitisbraut og Fossvogsvegi til austurs. Þetta eru allar götur sem enda á -leiti, auk hverfis sunnan Bústaðavegar: Skógarvegur, Sléttuvegur og Lautarvegur. Kjósendur fóru áður í Hlíðaskóla.

 

 

 

 

til baka