lau. 30. maí 2020 08:18
Svens við Dalveg í Kópavogi var opnuð í síðasta mánuði. Svens er sérverslun með snus og nikótínpúða.
Vilja að lög og reglur nái utan um sölu nikótínpúða

„Það eru engin lög eða reglugerðir um sölu á þessum púðum. Þó er hærra nikótínmagn í þessum vörum heldur en í vörum sem eru leyfðar. Það er því auðvelt að fá allskonar eitrunaráhrif enda fylgja engar aðvaranir,“ segir Guðlaug B. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins.

Aðalfundur félagsins sem haldinn var á dögunum skoraði á heilbrigðisyfirvöld að móta framtíðarstefnu í tóbaksvörnum. Ekkert hafi gerst á þeim sjö árum sem liðin eru frá því að starfshópur um verkefnið var skipaður.

„Seinagangur hins opinbera í setningu laga og reglugerða sem eiga að vernda íslensk börn og ungmenni veldur miklum vonbrigðum. Rafsígarettusalar gátu óáreittir í mörg ár markaðssett og selt sinn varning. Nú eru það nikótínpúðarnir sem eru markaðssettir og seldir án allra takmarkana eða eftirlits. Ísland ætti að sýna gott fordæmi og banna sölu og markaðssetningu á rafsígarettum eins og mörg lönd hafa gert og einnig á nikótínpúðum,“ segir í ályktuninni.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Guðlaug það áhyggjuefni að nikótínpúðar séu seldir án eftirlits. „Það má selja þetta óheft. Í verslunum og á samfélagsmiðlum. Það er enginn feluleikur. Stjórnendur í skólum hafa lýst áhyggjum og komið með athugasemdir enda eru hvítir litlir púðar úti um allt á skólalóðum.“

 

til baka