mið. 8. júlí 2020 17:00
Samfélagsmiðlarisinn Facebook sem á bæði WhatsApp og Facebook Messenger virðist vera byrjaður að prófa að sameina forritin. Facebook hefur áður tilkynnt um fyrirætlanir sínar um að opna fyrir möguleika á að senda skilaboð á milli þessara tveggja forrita auk Instagram sem einnig er í eigu Facebook.
Prófa sameiningu Messenger og WhatsApp

Prófanir virðast vera í gangi hjá samfélagsmiðlarisanum Facebook á sameiningu samskiptaforritanna Facebook Messenger og WhatsApp. Greint er frá þessu á breska fréttavef Metro.

Facebook tilkynnti í fyrra um fyrirætlanir sínar um að sameina skilaboðaþjónustuna í þessum samskiptaforritum auk Instagram sem einnig er í eigu Facebook. Var þá talið að markmið Facebook væri að endurskipuleggja grundvallarvirkni forritanna svo að hægt verði að sameina skilaboðaforritin og senda skilaboð á milli þeirra.

https://www.mbl.is/frettir/taekni/2019/01/25/instagram_messenger_og_whatsapp_i_eitt/

Samkvæmt frétt Metro um málið eru áreiðanlegar heimildir fyrir því að prófanir séu nú hafnar á því að gera samskipti milli fyrrnefndra tveggja forrita, Messenger og WhatsApp, möguleg. Vísar Metro meðal annars í tæknivefinn WABetaInfo sem fylgist grannt með þróun WhatsApp en þar er bent á að í kóða í Messenger-forritinu megi finna vísbendingar um þessar prófanir.

 

Í kóðanum koma fram upplýsingar sem benda til þess að Facebook sé að byggja upp gagnagrunn með upplýsingum úr WhatsApp-forritinu. Í þennan gagnagrunn virðist Facebook vera að safna ýmsum upplýsingum um WhatsApp-notendur, meðal annars hvort lokað (e. Block) hafi verið á notanda og hvaða hljóð eru notuð fyrir tilkynningar. Einnig er þar að finna upplýsingar um spjall einstaklings, svo sem símanúmer og mynd sem notandi sem spjallað er við notar en upplýsingar um skilaboðin sjálf virðast ekki vera geymdar í gagnagrunninum samkvæmt WABetaInfo.

Ekki er tekið fram hvenær eða hvort hægt verði að senda skilaboð milli forritanna í náinni framtíð.

 

.

til baka