fös. 10. júlí 2020 22:15
Sólborg segir „alls konar“ á leiðinni frá henni í tónlistarbransanum en Sólborg hefur í nógu að snúast og vinnur hún nú að kyn- og kynjafræðislubók sem kemur út um jólin.
Sólborg samdi við Sony: „Fæ kitl í tærnar“

Sólborg Guðbrandsdóttir, söngkona og aðgerðarsinni sem þekkt er fyrir Instagram-síðuna Fávita, skrifaði undir samning við Sony Music, eitt stærsta út­gáfu­fyr­ir­tæki heims á dögunum. Sólborg segir um að ræða gamlan draum en hún gengur nú undir listamannsnafninu SUNCITY, sem er, eins og glöggir lesendur taka eftir, ensk þýðing á nafninu hennar.

„Umboðsskrifstofan mín, Iceland Sync, er í góðu samstarfi við Sony og þau hafa unnið mikið saman. Sony komst svo yfir demó af tónlist sem ég var að vinna í og vildu gera samning við mig í kjölfarið,“ segir Sólborg sem gefur út nýtt lag í dag, föstudag.

Sólborg segist þakklát fyrir samninginn en hann felur meðal annars í sér að Sony dreifi tónlist Sólborgar um allan heim og aðstoði við markaðssetningu. 

„Ég er svona ennþá að reyna að ná utan um þetta. Það er mikil spenna fyrir komandi tímum og ég er ótrúlega þakklát fyrir að svona klárt og hæfileikaríkt fólk vilji vinna með mér.“

„Gríðarleg hvatning“

Spurð hvaða þýðingu samningur sem þessi hafi fyrir hana segir Sólborg: 

„Hann er gríðarleg hvatning til að halda áfram. Ég held þetta sé bara rétt að byrja og er virkilega spennt fyrir framhaldinu. Þetta er svo gaman að ég fæ kitl í tærnar.“

 

Sólborg hefur verið í tónlist alveg frá því að hún man eftir sér. 

„Pabbi er tónlistarmaður og hann hefur spilað með okkur systkinunum frá því við vorum lítil. Að mínu mati er tónlist einn besti tjáningarmáti sem til er. Tónlist hefur alla vega komið mér í gegnum alls konar hluti og ég er viss um að heimurinn yrði ansi fátæklegur án tónlistar. Það eru algjör forréttindi að fá að starfa við það sem maður elskar.“

Þykir vænt um nýja lagið

Lagið sem Sólborg gefur út í dag, föstudag, er heitir Naked og er samið af Ölmu Goodman, Klöru Elias, Glashaus og Jóhannesi Ágústi. Það er aðgengilegt á Spotify.

„Það fjallar um þær fullkomlega ófullkomnu hliðar manns, sem ekki allir eiga skilið að fá að sjá. Þegar maður er berskjaldaður, hræddur, óöruggur, það er þá sem maður er raunverulega nakinn og lagið er ágæt áminning um það. Við höfum verið að vinna í þessu lagi í sirka ár núna og mér þykir virkilega vænt um það. Það er svo „pródúserað“ af Jóhannesi Ágústi og [hljóðblandað] og „masterað“ af Sæþóri Kristjánssyni.“

https://www.mbl.is/smartland/heilsa/2020/06/03/vilja_op_in_skarri_umraedu_um_kyn_lif/

Sólborg segir „alls konar“ á leiðinni frá henni í tónlistarbransanum en Sólborg hefur í nógu að snúast og vinnur hún nú að kyn- og kynjafræðslubók sem kemur út um jólin. Sólborg hefur um margt helgað sig slíkri fræðslu á Instagram-síðu Fávita. 

til baka