fös. 10. júlí 2020 11:30
Zac Efron ásamt Kjartani Gíslasyni einum af stofnendum Omnom og heils­u­sér­fræðingn­um Darin Olien sem ferðast með Zac Efron um heiminn í nýju heimildaþáttaröðinni Down To Earth.
Zac Efron fer á kostum á Íslandi í nýjum þáttum

Bandaríski leikarinn Zac Efron ferðast um Ísland í fyrsta þætti í nýju heimildaþáttaröðinni Down To Earth sem kom út á Netflix í dag, 10. júlí. Þar ferðast hann um landið og reynir meðal annars að tileinka sér súkkulaðigerðarlist í súkkulaðiverksmiðjunni Omnom.

Óskar Þórðarson, einn af stofnendum Omnom, segir þáttinn hafa verið tekinn upp í heimsókn Zacs Efrons árið 2018 en Omnom mátti ekki greina frá þátttöku sinni í þættinum fyrr en nú þegar hann er loks kominn í loftið.

https://www.mbl.is/folk/frettir/2020/07/02/efron_synir_fra_islandsheimsokn_sinni/

Súkkulaðið misheppnaðist

„Það var skrifað undir þagnarskyldu. Það kom hér rosa teymi frá Netflix. Við máttum ekki segja neitt, þurftum bara að halda í okkur,“ segir Óskar í samtali við K100.is. „Þetta er rosa landkynning og við erum rosalega stolt af að fá að vera í þessum þætti,“ segir hann.

„Honum fannst Omnom-súkkulaðið geggjað. Hann bjó til sitt eigið súkkulaði líka en það misheppnaðist aðeins hjá honum. Hann setti of mikið salt og svona í það. Þetta sést allt í þættinum. Við nefndum að hann fengi nú ekki vinnu hérna strax,“ sagði Óskar kíminn.  

Heim­ild­arþætt­irnir fjalla um sjálf­bær­an og heilbrigðan lífsstíl og ferðast Efron í þeim um heiminn með heils­u­sér­fræðingn­um Dar­in Olien. Saman ferðast þeir meðal annars til Frakklands, Púerto Ríkó, London, Kostaríka, Perú og Sardiníu á Ítalíu og kynna sér sjálfbærar lausnir.

 

 

til baka