lau. 11. júlí 2020 16:15
Kórdrengir eru í toppsætinu.
Kórdrengir unnu toppslaginn - Dino varði tvær vítaspyrnur

Kórdrengir eru komnir með þriggja stiga forskot á toppi 2. deild karla í fótbolta eftir 2:1-útisigur á Haukum í dag.

Albert Brynjar Ingason var hetja Kórdrengja, en hann skoraði bæði mörk liðsins. Sigurmark hans kom á 88. mínútu, eftir að hann jafnaði metin á 64. mínútu. Tómas Leó Ásgeirsson kom Haukum yfir á 62. mínútu með marki úr víti. Kórdrengir eru með 13 stig og Haukar níu í þriðja sæti.

Selfoss er í öðru sæti með tíu stig, en Selfyssingar misstigu sig á heimavelli gegn Fjarðabyggð. Urðu lokatölur 0:0 á Jáverksvellinum á Selfossi. Fjarðabyggð er með átta stig. 

 

Hermann Hreiðarsson fer vel af stað með Þrótt frá Vogum. Gerði liðið góða ferð til Húsavíkur og vann þar Völsung, 2:1. Ásgeir Kristjánsson kom Völsungi yfir strax á fyrstu mínútu en Brynjar Jónasson og Alexander Helgason svöruðu fyrir Þrótt. 

Víðir vann sinn annan sigur er liðið fór til Dalvíkur og vann Dalvík/Reyni, 2:1. José Vidal kom Víði yfir á fjórðu mínútu, áður en Edon Osmani bætti við öðru marki á 22. mínútu. Angantýr Máni Gautason minnkaði muninn á 49. mínútu og þar við sat. 

Kári vann sterkan 1:0-heimasigur á ÍR í Akraneshöllinni. Andri Júlíusson skoraði sigurmarkið strax á 2. mínútu úr vítaspyrnu. Markvörðurinn Dino Hodzic var hinsvegar hetja Kára því hann varði tvær vítaspyrnur í leiknum.

til baka