mið. 15. júlí 2020 11:01
Varað er við mikilli úrkomu á Ströndum á morgun og hefur verið gefin út gul viðvörun fyrir svæðið.
Slydda og snjókoma til fjalla

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir á fleiri stöðum og er nú varað við veðri við Breiðafjörð, Vestfirði, miðhálendinu, á Ströndum og Norðurlandi vestra. Á föstudag er spáð slyddu og snjókomu til fjalla á Norðvesturlandi.

Veðrið versnar fyrst á miðhálendinu en þar gildir viðvörunin frá klukkan 19 í dag þangað til klukkan 3 í nótt. „Spáð er suðaustan 13-18 m/s á sunnan- og vestanverðu hálendinu. Vindstyrkur getur náð allt að 25 m/s í hviðum, en slíkt er varasamt fyrir göngufólk og þá sem hafast við í tjöldum.“

Frétt mbl.is

Hinar taka aftur á móti ekki gildi fyrr en á morgun er veðrið fer að versna á vestan- og norðanverðu landinu.

Vestfirðir - gul viðvörun frá klukkan 13 á fimmtudag til miðnættis. „Norðaustan 13-20 m/s og talsverð rigning. Snarpar vindhviður við fjöll, varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.“

Breiðafjörður - frá klukkan 16:00 til 23:59 á fimmtudag. „Norðaustan 13-20 m/s, hvassast norðan til og snarpar vindhviður við fjöll. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.“

Strandir og Norðurland vestra - klukkan 16-23:59 á fimmtudag. „Allhvöss eða hvöss norðaustanátt og talsverð eða mikil rigning á Ströndum, slæmt veður til útivistar.“

Í dag er spáð hægri austlægri átt og víða dálítilli rigningu en bætir í vind og úrkomu seinni partinn, talsverð rigning V-lands. Hiti 8 til 15 stig.

Vaxandi norðaustanátt NV-til á landinu á morgun, 13-20 m/s síðdegis og suðvestan 13-18 við suðausturströndina. Mun hægari vindur annars staðar, en hvessir SV-lands um kvöldið. Áfram vætusamt og talsverð úrkoma á Vestfjörðum og Ströndum.

Á föstudag: Norðan 13-20 m/s, en mun hægari um landið A-vert. Talsverð rigning N-lands og slydda eða snjókoma til fjalla NV-til á landinu, en úrkomuminna sunnan heiða. Hiti 5 til 14 stig, hlýjast syðst.

Á laugardag:
Norðan 10-18 með kalsarigningu á N-verðu landinu og slyddu eða snjókomu til fjalla, en þurrt og bjart veður S-lands. Hiti 3 til 14 stig, mildast á SA-landi.

Á sunnudag:
Minnkandi norðanátt. Léttskýjað S-lands og dregur úr vætu N-til á landinu. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast á S- og V-landi.

Á mánudag og þriðjudag:
Vestlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og líkur á síðdegisskúrum. Hiti 8 til 15 stig.

Veður á mbl.is

til baka