mið. 15. júlí 2020 11:47
Pakkhúsið rauða húsið fjærst á þessari mynd. Það fær að standa samkvæmt dómi héraðsdóms.
Páli á Húsafelli gert að fjarlægja nýtt hús

Listamaðurinn Páll Guðmundsson á Húsafelli þarf að fjarlægja nýlegt hús sem hýsa átti legsteinasafn og vera þannig hluti af þeim byggingum sem hýsa listasafn Páls. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Vesturlands við kröfu nágranna Páls, Sæmundar Ásgeirssonar, sem rekur gistiþjónustu á næstu lóð, en dómurinn var kveðinn upp í gær. Hins vegar var Páll sýknaður af kröfu um að rífa annað hús sem kallast pakkhúsið.

Páll býr að Húsafelli 2, en Sæmundur rekur gistiþjónustuna Gamla bæ á Húsafelli I. Páll á einnig lóðina Bæjargil sem á lóðamörk að Húsafelli I sunnan við Húsafellskirkju.

Sameiginlegt bílaplan og aukin umferð

Borgarbyggð hafði árið 2015 veitt leyfi til að flytja pakkhúsið á lóðina við Bæjargil sem og byggingarleyfi fyrir húsnæði legsteinasafnsins á sömu lóð. Sæmundur var ósáttur með þessa niðurstöðu og benti meðal annars á mannvirkjum þessum væri ætlað að laða að sér gesti og slíkt myndi hafa í för með sér aukna umferð á svæðinu, en aðkoma að Bæjargili og Húsafelli I er sú hin sama. Þá gerði deiliskipulag ráð fyrir að þrengt yrði að bílaplani á lóð Húsafells I, en bílastæði Gamla bæjar, kirkjunnar og Bæjargils átti að vera óskipt. Taldi Sæmundur ljóst að safngestir myndu leggja undir sig bílastæði á svæðinu.

 

 

Árið 2018 komst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að því að deiliskipulagið hefði ekki tekið lögformlegt gildi og væri því ógilt. Var byggingarleyfi vegna húsnæðis undir legsteinasafnið jafnframt fellt úr gildi. Hafði Páll á þessum tíma byggt húsnæðið undir legsteinasafnið og flutt pakkhúsið á lóðina. Í kjölfar úrskurðarins fór Sæmundur með málið fyrir dómstóla og krafðist þess að Páli yrði gert að fjarlægja húsin.

Mátti vera ljóst um ágreining og kostnað á eigin ábyrgð

Héraðsdómur Vesturlands komst í dómi sínum að þeirri niðurstöðu að Páli hefði mátt vera ljóst þegar hann lét reisa húsnæði undir legsteinasafnið að ágreiningur væri um lögmæti þess að húsið yrði reist og að kostnaður vegna þess væri á hans ábyrgð. Var honum því gert að fjarlægja það. Í tilfelli pakkhússins, sem var fært að Bæjargili telur dómurinn að ekki hafi verið sýnt fram á að Páli hafi við flutninginn mátt vera kunnugt um ólögmæti leyfisins fyrirfram. Er hann því sýknaður af kröfunni um að fjarlægja það hús.

 

 

Í umfjöllun Skessuhorns um málið segir að kostnaður Páls vegna byggingar legsteinahússins sé um 40 milljónir, enda sé það að mestu uppbyggt og frágengið. Segir þar jafnframt að ekki sé ljóst hvort málsaðilar muni áfrýja niðurstöðunni né hvort fara eigi í skaðabótamál við sveitarfélagið vegna leyfamálanna.

til baka