mið. 15. júlí 2020 17:36
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gefur út áhugavert talnaefni um afbrot.
Hækkun sólar þyngir bensínfót

Fjölgun tilkynninga um heimilisofbeldi í miðjum Covid faraldi; þynging „bensínfótar“ með hækkandi sól og færri fíkniefnabrot er meðal þeirra upplýsinga sem finna má í mánaðarlegri samantekt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Samantektin gefur glögga mynd af afbrotahegðun á höfuðborgarsvæðinu, sem að mestu virðist með hefðbundnu sniði að nokkrum málaflokkum undanskildum.

Það sem af er árs er fjöldi hegningarlagabrota áþekkur meðaltali síðustu ára. Fjöldi þjófnaða og innbrota er líttilega undir meðaltali, en merkja má að þjófar hafi frekar fari frekar á stjá þegar hausta tekur. Litlar breytingar eru í flokki eignarspjalla, stuldi ökutækja og ofbeldisbrota

Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fjölgað á árinu og eru 7% yfir meðaltali síðustu 12 mánaða, en alls 400 tilkynningar hafa borist á árinu. Athygli vekur að þeim fjölgaði um 23% á milli mars og apríl í ár. Borið saman við síðustu 12 mánuði, hefur beiðnum um leit að börnum og unglingum fjölgað mikið, eða um 53%. Heildarfjöldi beiðna er þó vel undir meðaltali síðustu þriggja ára.

Há sól, þungur fótur 

Umferðalagabrotum hefur verulega fækkað borið saman við meðaltal síðustu þriggja ára eða um 25%. Sama er uppi á teningnum þegar kemur að akstri undir áhrifum sem dregist hefur saman um 29% miðað við sama tíma. Hækkandi sól virðist hafa áhrif á kverkar og fætur ökuþóra, en þeim brotum fjölgar marktækt eftir því sem líður á vorið.

Fjöldi fíkniefnabrota tók röskan kipp upp á við í maí á þessu ári, en hefur þó fækkað verulega á árinu og eru 35% færri miðað við þrjú síðustu ár. Áberandi er fækkun tilkynninga um kynferðisbrot, sem hafa dregist saman um 51% vegna brota sem tilkynnt eru jafnóðum og 24% vegna brota, óháð því hvenær það átti sér stað.

Svæði Lögreglunar á höfðuborgarsvæðinu er skipt í fjögur löggæslusvæði. Mest fjölgun brota er á svæði 2, sem nær yfir Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes.

 

 

 

til baka