mið. 15. júlí 2020 16:44
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Ekki talin hætta á að farþegar hafi verið smitandi

Ekki er talin hætta á að tveir Íslendingar sem komu hingað til lands í síðustu viku, völdu að fara í sóttkví við komuna til landsins og greindust svo með kórónuveiruna viku síðar, hafi verið smitandi á leið sinni til landsins. Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Er það byggt á því hve langur tími leið frá því fólkið kom til landsins og þar til það greindist.

Fólkið kom frá Amsterdam, en hafði fyrir það verið í öðru landi, en Rögnvaldur segist ekki hafa upplýsingar um hvaða land það er. Fólkið hafi tilkynnt við komuna til landsins að það vildi frekar sæta tveggja vikna sóttkví en undirgangast skimun fyrir veirunni á vellinum. „Þau voru búin að gera ráðstafanir og fá fólk sem er þeim tengt til að fylla á mat og annað á heimilinu,“ segir Rögnvaldur.

Í samtali við mbl.is á dögunum sagði Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, að það hringdi ákveðnum viðvörunarbjöllum þegar fólk ákvæði að fara í sóttkví í stað þess að fara í skimun á vellinum.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/07/06/ad_velja_sottkvi_vekur_spurningar/

Spurður út í það segir Rögnvaldur að óvanalegt sé að velja sóttkvína; það hafi aðeins örfáir gert þótt hann hafi ekki nákvæmar tölur um fjöldann. „Allir sem hafa valið að fara í sóttkví eru teknir í viðtal til að ganga úr skugga um að þeir séu meðvitaðir um hvað felist í því úrræði,“ segir Rögnvaldur. Hann segir að enginn hafi gerst sekur um að brjóta reglurnar frá því landamæraskimunin hófst. „ins vegar séu dæmi um að fólk hafi hætt við að velja sóttkví og kosið frekar skimun eftir að það áttaði sig á því hvað fólst í sótkvínni.“

 

 

Einn úr vinnuflokki smitaður um borð í Norrænu

Norræna lagði í gær úr höfn frá Hirtshals í Danmörku á leið sinni til Íslands, með viðkomu í Færeyjum. Einn farþegi um borð hefur greinst með kórónuveiruna en beðið er eftir niðurstöðum mótefnamælingar til að athuga hvort hann er með virkt eða gamalt smit. Maðurinn er í vinnuflokki sem er á leið hingað til lands og hafa hann og allir samferðarmenn hans verið settir í sóttkví.

Reynist maðurinn með jákvætt smit verður hann settur í einangrun og sóttkví félaga hans framlengd, en búið er að gera viðeigandi ráðstafanir á vinnusvæði þeirra hér á landi.  Að sögn Rögnvalds hefur maðurinn þó ekki haft samneyti við aðra farþega um borð í Norrænu og þarf því enginn utan vinnuflokksins að fara í sóttkví þótt smit hans reynist virkt.

Allir farþegar um borð í Norrænu voru skimaðir fyrir veirunni stuttu eftir að þeir stigu um borð í Danmörku, en ríkið hefur gert samning við fyrirtæki þar í landi um að framkvæma skimunina.

 

til baka