mið. 15. júlí 2020 20:13
Slökkvilið Akureyrar hefur sinnt mörgum útköllum í dag. Meðal annars fór brunaviðvörunarkerfi sjúkrahússins á Akureyri í gang.
Mikið að gera hjá slökkviliði Akureyrar

Slökkvilið Akureyrar var kallað út fyrr í kvöld eftir að brunaviðvörunarkerfið á sjúkrahúsinu á Akureyri fór í gang. Þegar á staðinn var komið kom í ljós að um bilun í tæki var að ræða sem setti kerfið af stað en enginn eldur.

„Það hefur verið þó nokkuð mikið að gera,“ segir varðstjóri slökkviliðsins í samtali við mbl.is. Slökkviliðið hefur farið í tólf sjúkraflutninga og þrjú sjúkraflug í dag til viðbótar við brunaútkallið.

Slökkviliðið á Akureyri sinnir sjúkraflugi fyrir Vestfirði, Norðurland og Austurland að Höfn í Hornafirði. Sjúkraflugin í dag voru frá Akureyri, Höfn í Hornafirði og Bíldudal – öll til Reykjavíkur. Slökkviliðið hefur farið í 339 sjúkraflug á þessu ári.

til baka