sun. 9. ágú. 2020 20:52
Lögregla í Grønland-hverfinu í Ósló. Á ýmsu gekk í næturlífinu í gærkvöldi eftir að norsk stjórnvöld bönnuðu alla sölu áfengis eftir miðnætti um allt land. Veisluglaðir Norðmenn streymdu í heimahús, almenningsgarða og til annarra svæða og voru mörg hundruð manns saman komin við Paradisbukta á Bygdøy. Lögregla um allt land þurfti að velja og hafna í útköllum sínum vegna veisluglaums
Lögregla heimsótti 54 partí

Lögreglan í Ósló hafði í nógu að snúast í nótt við að stöðva einkasamkvæmi sem flest áttu það sameiginlegt að gestir létu þar sóttvarnareglur allar sem vind um eyru þjóta. Við Paradisbukta á Bygdøy skemmtu mörg hundruð manns sér, að sögn lögreglu, á viðburði sem skipulagður hafði verið fyrir fram og fóru margar lögreglubifreiðar í útkall þangað og stöðvuðu glauminn.

Greindi lögreglan frá því á Twitter að sá sem stóð fyrir gleðskapnum hefði tekið tilmælum lögreglu vel, slökkt á tónlist og hafið tiltekt á svæðinu. Ekki hafði hann sýnt þá fyrirhyggjusemi að gera ráð fyrir salernisaðstöðu á skemmtun sinni og greindi lögregla frá því að notaður salernispappír hefði verið sem hráviði í runnum og kjarri næsta nágrennis.

Tilkynningar bárust um hávaða og læti frá vel á annað hundrað teitum, á heimilum sem utan þeirra og varð lögregla að forgangsraða útköllum enda útilokað að hafa afskipti af öllum sem tilkynnt var um.

Lokað á miðnætti um allt land

Norðmenn hafa hert verulega á ráðstöfunum til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar og á miðnætti í gær hófst bann við allri sölu áfengis eftir miðnætti um allt landið sem ýtti rækilega undir að heimili fólks tækju við skemmtistaðahlutverkinu.

Marita Aune, aðgerðastjóri lögreglunnar í Ósló, segir við norska ríkisútvarpið NRK að stærri skipulagðir viðburðir utandyra, eins og í Bygdøy og einnig í Bjørvika við miðbæ Óslóar þar sem 100 manns skemmtu sér undir berum himni í gærkvöldi, tengist líklega snemmbúnum lokunum öldurhúsa þótt ekki sé hægt að fullyrða um það.

„Fólk verður að hugsa sinn gang. Við erum engin sóttvarnalögregla. Hvetja þarf almenning til að fylgja þeim tilmælum sem yfirvöld gefa út,“ segir aðgerðastjórinn.

Svipaðar fréttir berast frá byggðarlögum hvaðanæva. Í Hamar söfnuðust um 150 skemmtanaþyrst ungmenni saman á Domkyrkjeodden uns lögregla skakkaði leikinn. Í miðbæ Þrándheims var ærandi gleðskapur eftir að skrúfað var fyrir bjórkranana á miðnætti, að sögn Vegard Helgesen Riseth sem stjórnaði aðgerðum lögreglu þar í nótt.

48 smitaðir eftir veislur í Vestur-Ósló

Sagði hann fjölda fólks einnig hafa fengið sér ölteiti nokkra í heimahúsum. „Margir héldu greinilega fjörinu áfram heima eftir miðnætti. Það er ekki einfalt mál þegar okkur berast yfir þrjátíu tilkynningar á nokkrum klukkustundum um veisluglaum í íbúðahverfum. Við höfum ekkert ráðrúm til að fylgja því öllu eftir,“ segir hann.

Sömu sögu hafði lögregla að segja í Tromsø, Kirkenes, Vadsø, Hammerfest, Alta, Sortland, Mo i Rana, Molde og Ålesund svo eitthvað sé nefnt.

Smittilfellum tengdum veisluhöldum í Vestur-Ósló um síðustu helgi, sem mbl.is greindi frá, hefur nú fjölgað úr 28 í fyrradag í 37 hjá þeim sem voru í teitunum fjórum en auk þeirra hafa þrír í Ósló smitast af gestunum, fimm í Bergen og þrír í Bærum, alls 48 manns.

Frétt af mbl.is

Sveitarfélagið Indre Østfold í Viken, skammt frá Ósló, gengur svo langt að banna allar samkomur og heimsóknir milli fólks sem ekki tilheyrir sömu fjölskyldu og tekur bannið gildi klukkan 22 í kvöld og gildir í viku til að byrja með.

Tólf ný smit hafa greinst þar í sveitarfélaginu í dag og 59 síðustu daga að sögn Jan Børre Johansen, yfirlæknis sveitarfélagsins, og segir Saxe Frøshaug bæjarstjóri að neyðarástand ríki í þessu 45.000 íbúa byggðarlagi. Hvetur hann norsk stjórnvöld til að loka landamærunum að Svíþjóð á ný en meðal annarra ráðstafana sem gripið verður til í Indre Østfold er að öll bókasöfn, íþróttahús, sundlaugar og fótboltavellir verða lokuð til mánaðamóta hið minnsta.

Samkvæmt tölum Lýðheilsustofnunar Noregs eru 9.599 kórónuveirutilfelli færð til bókar í landinu frá upphafi faraldurs, þar af 48 síðasta sólarhringinn og 131 síðustu tvo sólarhringa en tölurnar eru frá því snemma í dag.

NRK

VG

Nettavisen

ABC Nyheter

til baka