fim. 21. jan. 2021 16:40
737 vélar Boeing á vegum Southwest Airlines.
Greiða fyrir bólusetningu starfsfólks

Bandaríska flugfélagið Southwest Airlines greindi frá því fyrr í dag að starfsmenn fyrirtækisins fái gjaldfrjálsa bólusetningu við kórónuveirunni. Ákvörðun þess efnis var tekin í vikunni, en starfsmennirnir verða bólusettir eins fljótt og auðið er. Reuters greinir frá. 

Í tilkynningu flugfélagsins segir jafnframt að starfsmenn Southwest Airlines vilji langflestir fá bóluefni við veirunni. Þá hafa starfsmenn lýst yfir ánægju með ráðstöfunina. 

Að því er fram kemur í tilkynningunni er unnið að því að finna bóluefni fyrir starfsfólkið. „Við erum með fólk sem leitar nú að bóluefni af fullum krafti. Við viljum að starfsfólk okkar verði bólusett eins snemma og hægt er. Það er þó líklegt að það verði síðar stigum bóluefnadreifingarinnar.“

Bandaríska ríkið greiðir fyrir bóluefni handa íbúum vestanhafs. Hins vegar falla til önnur gjöld sem fólk þarf að greiða fyrir. Starfsmenn Southwest Airlines munu aftur á móti ekki þurfa að hafa áhyggjur af því. 

til baka