fös. 22. jan. 2021 10:22
Tengiltvinn Nova 600-fóðurprammi er 30 metra langur og 12 m breiður. Fiskeldi Austfjarða fær í tvo slíka afhenta í vor.
Tengiltvinnprammar í eldið á Austurlandi

Tveir stórir fóðurprammar sem Fiskeldi Austfjarða hefur fest kaup á frá Noregi og koma til starfa í vor verða rafknúnir, svokallaðir tvinnprammar. „Tvinnprammar eyða minni olíu. Það sparar útgjöld og vinnur með umhverfinu,“ segir Ólöf Rún Stefánsdóttir, gæðastjóri Fiskeldis Austfjarða.

Fóðurprammar eru í notkun allan sólarhringinn, einn við hverja staðsetningu sjókvía. Hvert laxeldisfyrirtæki er því með nokkra pramma í notkun.

Hlaðið inn á rafgeyma

Rafknúnir fóðurprammar ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti um fjórar klukkustundir á sólarhring. Á þeim tíma fullhlaða þeir rafhlöður prammans.

Áætlað er að með notkun á rafknúnum fóðurpramma minnki olíunotkun á eldistíma einnar kynslóðar af laxi í sjókví um 80 þúsund lítra og sparnaðurinn nemi 23,5 milljónum króna. Við það minnkar losun á gróðurhúsalofttegundum um 90%. Þá er betra fyrir starfsmenn að vinna um borð vegna þess að þar er minni hávaði og titringur sem fylgir notkun véla.

Þessi tækni er að ryðja sér til rúms í Noregi og fleiri fiskeldislöndum. Margir nýir prammar eru með þessa tækni og einnig er verið að breyta eldri fóðurprömmum. Þá er aukning í að prammar fái rafmagn beint úr landi.

Prammarnir sem Fiskeldi Austfjarða hefur fest kaup á eru frá ScaleAQ í Noregi og eru með stærstu fóðurprömmum sem hingað hafa verið keyptir. Annar þeirra er af gerðinni Nova 600, er 30 metra langur, ber allt að 600 tonn af fóðri og er með möguleika á að gefa fóður samtímis í sextán kvíar.

Í Berufirði og Fáskrúðsfirði

Verið er að smíða prammana og er von á þeim hingað í byrjun maí. Ólöf Rún segir að þeir séu keyptir til að þjóna vaxandi starfsemi fyrirtækisins. Annar verður notaður í Berufirði en hinn í Fáskrúðsfirði.

til baka