fös. 22. jan. 2021 09:30
Google er afar ósátt við frumvarpið.
Google hótar að loka fyrir aðgang í Ástralíu

Google hefur hótað því að meina Áströlum að nota leitarvél sína á netinu ef stjórnvöld í landinu samþykkja ný fjölmiðlalög þar sem krafist er að netrisinn greiði fréttaveitum fyrir notkun á efni þeirra.

Mel Silva, framkvæmdastjóri Google í Ástralíu, sagði þingnefnd í höfuðborginni Canberra að „ekki sé hægt að vinna með“ þessi fyrstu fjölmiðlalög í heiminum þar sem kveðið er á um þessar greiðslur. Einnig sagði hann að lögin fyrirhuguðu grafi undan því hvernig netið gengur fyrir sig.

„Ef þessar tillögur verða að lögum þá getum við ekki annað en meinað Áströlum að nota leitarvél Google,“ sagði Silva. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækið hótar slíku eftir margra mánaða erfiðar samningaviðræður vegna lagafrumvarpsins.

Frumvarpið var lagt fram í fyrra og var því ætlað að skikka Google og Facebook til að greiða fréttamiðlum í landinu fyrir að birta fréttir þeirra. Ellegar þyrftu netrisarnir að greiða milljónir dollara í sektir.

til baka