fös. 22. jan. 2021 13:46
Starfsfólk gjörgæsludeildar Hospital Del Mar í Barcelona eru að örmagnast vegna álagsins sem fylgir Covid-19.
Yfirfullar deildir og örmagna starfsfólk

Innan við mánuði frá jólum er gjörgæsludeild Hospital del Mar í Barcelona nánast yfirfull og starfsfólkið að nálgast örmögnun.

Læknir á gjörgæsludeildinni, Mapi Gracia, segir að starfsfólkið sé orðið þreytt enda hafi ástandið verið viðvarandi í ár. Flestir sjúklinganna eru í öndunarvélum og rænulausir.

 

Hann segir að þau hafi vitað hvað myndi gerast eftir jólin því sóttvarnareglur hafi ekki verið nægjanlega harðar. „Í augnablikinu vitum við ekki hversu slæmt þetta verður og erum bara að vona að sjúkrahúsin yfirfyllist ekki.“

Gracia segir að það hafi verið nánast útilokað að finna autt rúm á deildinni. „Í dag hófst dagurinn með tveimur auðum rúmum en það kom strax sjúklingur í annað þeirra og nú erum við að bíða eftir öðrum sem er væntanlegur. Það þýðir að enn einn daginn er gjörgæsludeildin gjörsamlega yfirfull.“

 

Líkt og óttast var þá hefur smitum fjölgað mjög eftir að ferðatakmarkanir voru rýmkaðar yfir jólin þannig að fjölskyldur gætu komið saman. Smitin hafa aldrei verið jafn mörg og síðustu daga. 

Undanfarnar tvær vikur hefur innlögnum á sjúkrahús fjölgað um 82% og 60% aukning hefur verið í innlögnum á gjörgæslu. Vegna þessa hafa einhver héruð brugðið á það ráð að setja upp bráðabirgðaspítala, svo sem í Valencia. 

 

Hospital del Mar hóf starfsemi árið 1905 og var ætlað að sinna farmönnum sem komu til hafnar í Barcelona með smitsjúkdóma. En í dag eru fjórar af 12 hæðum nýttar í að sinna Covid-19 sjúklingum. Jafnframt eru Covid-sjúklingar í öllum gjörgæslurýmum spítalans. 

Aðrir þeir sem þurfa á gjörgæslu að halda eru nú á skurðdeildum sem þýðir að hætt er að gera allar aðgerðir nema lífsnauðsynlegar á sjúkrahúsinu.

Yfir 2,4 milljónir hafa smitast af Covid-19 á Spáni og af þeim eru yfir 55 þúsund látnir.

 

Framkvæmdastjóri lækninga á sjúkrahúsinu, Julio Pascual, segir að þetta sé ekki sama flóðbylgjan og var í mars og apríl en þetta er mun verra en í annarri bylgju sem hófst í júlí á Spáni og stóð fram á haust. Hann segir að í nóvember hafi gjörgæsludeildir ekki verið fullar af Covid-sjúklingum en nú sé staðan þannig. Þá hafi tvær hæðir sjúkrahússins sinnt Covid-sjúklingum en nú eru þær fjórar talsins. 

Samkvæmt rannsókn sem var gerð meðal 10 þúsund spænskra heilbrigðisstarfsmanna tókst tæplega helmingur þeirra á við andleg vandamál í kjölfar fyrstu bylgju faraldursins. Um 28% sýndu merki um þunglyndi sem er sex sinnum hærra hlutfall en meðal almennings. 3,5% höfðu íhugað sjálfsvíg. 

 

til baka