lau. 23. jan. 2021 08:00
Frá vinstri: Sigurbjörn Bárðarson, Sigríður Sigurðardóttir og Skúli Óskarsson.
Gamla ljósmyndin: Fjölbreytni íþróttalífsins

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Meðfylgjandi mynd er dæmi um fjölbreytnina í íþróttaflóru landsins en þar má sjá þrjá einstaklinga sem öll hafa hlotið sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna en koma úr þremur mjög ólíkum íþróttagreinum. 

Til vinstri er knapinn Sigurbjörn Bárðarson sem kjörinn var íþróttamaður ársins árið 1993. Sigurbjörn er sá eini úr hestaíþróttum sem hlotið hefur sæmdarheitið til þessa. 

Sigríður Sigurðardóttir varð fyrsta konan sem hlaut sæmdarheitið. Fyrstu átta skiptin urðu karlar fyrir valinu frá því kjörinu var komið á árið 1956 en árið 1964 varð breyting á þegar Sigríður var kjörin. Var hún þá fyrirliði landsliðsins í handknattleik sem varð Norðurlandameistari. 

Kraftlyftingamaðurinn Skúli Óskarsson var tvívegis kjörinn íþróttamaður ársins, 1978 og 1980. Var hann sá fyrsti úr sinni íþrótt sem varð fyrir valinu í kjörinu. 

Myndin er tekin í ársbyrjun árið 2006 í hófi þar sem kjöri á íþróttamanni ársins 2005 var lýst. Samtök íþróttafréttamanna bjóða ávallt þeim sem nafnbótina hafa hlotið til að vera viðstödd kjörið. Myndina tók Brynjar Gauti sem lengi myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

Sigríður var útnefnd í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2015 og Skúli árið 2017. 

til baka