fös. 22. jan. 2021 20:24
Viktor Gísli Hallgrímsson verst Luc Abalo í dag.
Vildi sýna að ég ætti heima í liðinu

„Þetta var góður leikur og það var mikil barátta í liðinu og við áttum góða möguleika á að vinna þetta. Það var þessi kafli í lokin sem eyðilagði þetta fyrir okkur, því miður,“ sagði markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson í samtali við mbl.is. 

https://www.mbl.is/sport/hm_handbolta/2021/01/22/draumurinn_uti_eftir_naumt_tap_gegn_frokkum/

Viktor kom sterkur inn í lið Íslands gegn Frakklandi í milliriðli á HM í Egyptalandi í dag en gat ekki komið í veg fyrir 26:28-tap. Ísland var tveimur mörkum yfir í seinni hálfleik en Frakkar voru sterkari á lokakaflanum og Yann Genty varði vel. „Þeir skiptu um markmann. Þeir eru með tvo markmenn frá PSG sem er toppklúbburinn í Frakklandi. Hann kom og lokaði í lokin og tók mikilvæga bolta fyrir þá.“

Markvörðurinn ungi var ánægður með sterka íslenska vörn fyrir framan sig í kvöld. „Þetta er allt eða ekkert vörn. Ef hún heppnast þá gengur vel en stundum brotnar hún. Maður þarf að lifa með því en vörnin spilað vel í dag, eins og hún hefur gert í síðustu leikjum.“

Viktor Gísli var í leikmannahópnum í fyrsta leik en náði sér ekki á strik og hefur síðan þurft að gera sér að góðu að horfa á leiki úr stúkunni, utan hóps. Hann viðurkennir að það hafi verið erfitt. 

„Já klárlega. Maður vill spila alla leiki eins og ég hef verið að gera í Danmörku. Leikstíll Íslands er aðeins öðruvísi en ég er vanur í Danmörku og það tekur smá tíma að komast inn í hann,“ sagði Viktor sem vildi ólmur standa sig í dag eftir að hafa verið utan hóps. „Ég vildi sýna að ég ætti heima í liðinu,“ sagði hann. Uppaldi Framarinn var nokkur ánægður með eigin frammistöðu. 

„Þetta var fínt. Ég náði nokkrum góðum boltum en ég hefði viljað taka allavega eitt frá Dika Mem þar sem hann skaut þrisvar á sama stað og svo eru alltaf litlir hlutir sem ég hefði viljað gera betur.“

Spænskir dómarar leiksins voru ekki vinsælir hjá leikmönnum og þjálfurum Íslands eftir leik og benti Viktor á að Genty í markinu hafði mátt sjá rautt spjald fyrir brot á Bjarka Má Elíssyni í hraðaupphlaupi. „Þeir dæmdu ekki þegar markmaðurinn snerti Bjarka í lokin. Það var mjög skrítin ákvörðun en annars tók ég ekki eftir miklu persónulega,“ sagði Viktor Gísli.

til baka