fös. 22. jan. 2021 20:56
Norðmaðurinn Harald Reinkind  sækir að vörn Alsírbúa í leiknum í kvöld.
Norðmenn ekki í minnstu vandræðum

Norðmenn höfðu mikla yfirburði í kvöld þegar þeir mættu Alsírbúum í milliriðli þrjú á heimsmeistaramóti karla í handbolta í Egyptalandi.

Alsír stóð þó þokkalega í silfurliði síðasta heimsmeistaramóts framan af en staðan var 17:11 fyrir Norðmenn í hálfleik. Þeir stungu síðan gjörsamlega af eftir hlé, voru komnir þrettán mörkum yfir um miðjan síðari hálfleikinn en lokatölur urðu 36:23.

Fyrir lokaumferðina á sunnudag er Frakkland með 8 stig, Noregur 6, Portúgal 6, Sviss 2, Ísland 2 og Alsír ekkert. Þar mætast Sviss - Alsír, Ísland - Noregur og Frakkland - Portúgal.

Það er því alls ekki víst að sigur gegn Íslandi myndi duga Norðmönnum til að komast í átta liða úrslitin. Portúgalar gætu náð öðru sætinu með því að vinna Frakka. Norska liðið stendur höllum fæti í innbyrðis viðureignum, endi öll þrjú liðin jöfn með 8 stig, vegna ósigurs gegn Frökkum, 24:28, í fyrstu umferð mótsins. Noregur vann síðan Portúgal, 29:28.

Noregur: Alexandre Christoffersen Blonz 7, Sander Sagosen 6, Kevin Maagero Gulliksen 4, Harald Reinkind 4, Kristian Bjornsen 3, Kent Robin Tonnesen 3, Goran Sogard Johannessen 3, Petter Overby 2, Christian O`Sullivan 2, Thomas Solstad 2.

Alsír: Abdi Ayoub 7, Redouane Saker 4, Moustapha Hadj Sadok 4, Messaoud Berkous 3, Hichem Kaabeche 2, Rahim Abdelkader 1, Sofiane Bendjilali 1, Daoud Hichem 1.

til baka